„Í stríði gilda ákveðnar reglur“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór

Alþjóðadóm­stóll­inn í Haag gaf fyrr í vikunni út ráðgef­andi álit sem seg­ir að land­taka Ísra­els í Palestínu sé ólög­mæt. Í kjölfarið ítrekaði utanríkisráðuneytið niðurstöðuna og sagði hersetu Ísraels ólöglega.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir fyrst og fremst skipta máli að ná fram vopnahléi á svæðinu.

„Þarna er auðvitað um að ræða niðurstöðu sjálfstæðs dómstóls sem er nokkuð skýr í sinni niðurstöðu. Í þessu ofboðslega flókna ástandi sem þarna ríkir skiptir fyrst og síðast máli að ná fram vopnahlé til þess að hægt sé að vinna og meta næstu skref.

Þetta hangir saman og í því samhengi eru það eins og alla jafna stærstu áhrifavaldar og leikendur í þessu öllu saman sem geta haft áhrif á það hver næstu skref verða. Ég vona sannarlega að það verði hægt að ná einhverri niðurstöðu um vopnahlé til þess að hægt sé að horfa fram á við í þessu ofboðslega flókna ástandi,“ segir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu

Sérðu fyrir þér að Ísland muni beita einhverjum frekari þrýsingi nú þegar þetta álit er ljóst?

„Við höfum hingað til, og munum áfram, nota þann vettvang sem við höfum hverju sinni, okkar rödd, hvort sem það er í atkvæðagreiðslu eða yfirlýsingum, samskiptum við þarlend stjórnvöld. Og sömuleiðis í samskiptum við önnur ríki sem eru að beita sér fyrir, til að mynda vopnahléi, og þar í framhaldi næstu skrefum. Við munum hér eftir, sem hingað til, gera það og síðan, sem að öllu skiptir, vera trúverðug í því að hornsteinn okkar utanríkisstefnu sé að alþjóðalög séu virt.

Eins og ég hef áður sagt, og segi aftur af þessu tilefni, að þá fylgja alþjóðalögum ekki einungis heilög réttindi, heldur líka heilagar skyldur. Í stríði gilda ákveðnar reglur sem að ríki hafa skuldbundið sig til að fara eftir og þegar við ákveðum saman að setja á fót dómstóla til þess að kveða úr um það hvenær þeim er fylgt og hvenær ekki, þá þarf ríki sem á allt undir að alþjóðalög séu virt að standa með sjálfstæði slíkra dómstóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert