Mun fleiri börn í harðri fíkniefnaneyslu

Mikið álag hefur verið á Stuðlum í ár vegna fjölgunar …
Mikið álag hefur verið á Stuðlum í ár vegna fjölgunar barna sem neyta vímuefna. mbl.is/Hari

313 tilkynningar hafa borist barnavernd vegna vímuefnaneyslu barna á fyrstu sex mánuðum ársins. Flest eru börnin á aldrinum 15-17 ára en dæmi eru um að börn niður í 13-14 ára séu að neyta harðra vímuefna.

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Ólöf Ásta Farestveit, segir stofnunina finna mikið fyrir fjölgun mála og að álag á Stuðlum, neyðarvistun fyrir ungmenni, aukist mikið.

Fjallað er um í Morgunblaðinu í dag að tilkynningum um vímuefnaneyslu barna, á fyrstu sex mánuðum ársins, hafi fjölgað um 119% milli ára. 

Fleiri börn í neyðarvistun

„Það voru 154 mál sem voru tilkynnt til barnaverndar árið 2022. Árið 2023 lækkar það niður í 143 mál en þau fóru upp í 313 fyrstu sex mánuði ársins í ár,“ segir Ólöf og bætir við að stofnunin finni mikið fyrir tilkynningunum þar sem mun fleiri börn hafi verið vistuð í meðferðarúrræði á vegum stofnunarinnar og þá hafi álag á neyðarvistun á Stuðlum aukist.

Nefnir forstjórinn að vissulega geti verið um að ræða margtalin börn, þ.e. börn sem hafi verið tilkynnt aftur og aftur, en segir að stofnunin finni áþreifanlega fyrir því að fleiri börn séu í harðri neyslu. 

„Það eru fleiri börn, og fleiri börn sem eru að koma og koma þá sérstaklega í gegnum neyðarvistunina,“ segir Ólöf.

Um neyðarvistunina á Stuðlum segir Ólöf að þar sé að finna börn sem eru talin stofna lífi sínu í hættu.

„Þá er barnavernd oft að vista í neyðarvistun á meðan þau eru að leita að einhverju úrræði eða reyna að aðstoða foreldra með barnið eða skoða hagi barnsins. Þá eru þau sett í neyðarvistun í nokkra daga, í allt að 14 daga. Þannig að álagið þar hefur verið mikið.“

Ólöf Ásta Farestveit, for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu.
Ólöf Ásta Farestveit, for­stjóri Barna- og fjöl­skyldu­stofu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikið um blandaðar töflur

Spurð að því hvernig vímuefni sé um að ræða og hvort margar tilkynningar gætu mögulega snúið að neyslu nikótínpúða eða rafsígarettna segir Ólöf ekki svo vera. Um sé að ræða mikla neyslu áfengis og harðra fíkniefna.

„Þetta eru sterkari vímuefni og pillur og ýmiss konar svona töflur sem við erum að sjá og höfum séð inni á neyðarvistun sem eru óútskýrðar. Við vitum ekki alveg hvers konar töflur þetta eru. Þegar við mælum, þá höfum við meðal annars séð blöndu af ýmiss konar fíkniefnum í einhverjum töflum, sem væntanlega eru gerðar hérna heima, og ungu krakkarnir, þau sækja í það,“ nefnir Ólöf og bætir við:

„Það náttúrulega kostar minnst og það eru ýmis efni sem við höfum líka séð sem eru óþekkt. Þannig að þetta er sem sagt blanda af einhverjum töflum sem eru mjög mismunandi.“

Nefnir þá forstjórinn að einnig hafi komið upp tilfelli þar sem um er að ræða svokallað læknadóp, en það er einnig töluvert ódýrara en mörg önnur fíkniefni.

Um aldur þeirra barna sem flestar tilkynningar beinast að segir Ólöf að flest þeirra séu á aldrinum 15-17 ára gömul.

„En vissulega eru 13 ára og 14 ára börn sem koma einnig,“ segir Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert