Eins og malbikað hafi verið yfir leiðið

Leiðið var skreytt með blóðbergi en er nú bert og …
Leiðið var skreytt með blóðbergi en er nú bert og þakið möl. Samsett mynd/Aðsend

Starfsmenn kirkjugarðsins í Fossvogi unnu skemmdarverk á leiði hjónanna Bergþórs Jóhannssonar mosafræðings og Dóru J. Guðjohnsen grasafræðings. Þetta segir dóttir þeirra, rekstrarhagfræðingurinn Brynhildur Bergþórsdóttir, í samtali við mbl.is.

Foreldrar Brynhildar voru lögð til hinstu hvílu í duftkerareitnum í kirkjugarðinum í Fossvogi, Bergþór árið 2006 en Dóra árið 2019.

Þau deila sama reitnum og leiði hjónanna var skreytt íslensku blóðbergi. Nýlega var allur gróður rifinn upp með rótum og möl sett yfir leiðið, án þess að haft væri samband við aðstandendur.

Starfsfólkið sagði fyrst að um mistök hefði verið að ræða, en síðar bar það fyrir sig að óheimilt væri að gróðursetja næstum allar plöntur í kirkjugörðum. 

Mynd þessi var tekin þegar systurnar mátuðu nýjan skjöld á …
Mynd þessi var tekin þegar systurnar mátuðu nýjan skjöld á steininn eftir að aska móður þeirra var jarðsett. Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt blóðberg á leiðinu 

Þegar Bergþór lést sóttu Brynhildur og systur hennar mosaþakinn stein norður á Strandir, þar sem hann var fæddur og uppalinn. Var steininum komið fyrir þar sem duftkerið hans er jarðsett.

Dóra vildi hafa fallegan íslenskan gróður á leiðinu sem seinna yrði líka legstaður hennar.

„Mamma hugsaði mikið um leiðið hans pabba eftir að hann dó. Pabbi var mosafræðingur og mamma var grasafræðingur. Þau höfðu bæði mikið dálæti á íslensku náttúrunni,“ segir Brynhildur.

„Blóðberg varð fyrir valinu. Það er náttúrulega bara dásamlegt og er ekki þekkt fyrir að vaða yfir landið stjórnlaust.“

Ákveðið afrek þykir að Dóra hafi náð að sá blóðbergi í kirkjugarði, enda sé það ekki þekkt fyrir að sjást á slíkum stöðum.

„Þeir sem eitthvað þekkja til vita hversu erfitt er að fá blóðberg til að missa ekki lífsviljann þegar til borgarinnar er komið en mömmu tókst að koma því til af mikilli natni,“ segir Brynhildur.

Leiðið eins og malbikað

Hún segir leiðið nú helst líta út fyrir að malbikað hafi verið yfir það, en svört möl hefur verið lögð yfir það.

Var það gert án nokkurs samráðs við Brynhildi eða systur hennar, sem hún segir sjálf ákveðna vanvirðingu.

Manneskjan sem Brynhildur talaði fyrst við hjá Fossvogskirkjugarði vegna málsins sagði að þegar farið hefði verið yfir gróður í kirkjugarðinum hefði engin athugasemd verið gerð við leiði Bergþórs og Dóru. Um mistök starfsmanna hlyti að vera að ræða.

„Ég fór fram á að fá afsökunarbeiðni og ég fór líka fram á að þessi skaði yrði bættur og að kirkjugarðurinn myndi leggja okkur til aðra plöntu,“ segir Brynhildur.

Einnig fór hún fram á að starfsfólk kirkjugarðanna yrði þjálfað í því að þekkja muninn á illgresi og öðrum gróðri.

Leiðið eins og það lítur út í dag.
Leiðið eins og það lítur út í dag. Ljósmynd/Aðsend

Næstum því allar plöntur bannaðar

Tveimur dögum síðar talaði Brynhildur við garðyrkjufræðing hjá kirkjugörðunum. Hún vitnaði þá í plagg sem hékk uppi á vegg og stóð:

„Óheimilt er að setja trjátengdar plöntur, sem og fjölæringa sem sá sér eða dreifa sér með rótum.“

Brynhildur segir að garðyrkjufræðingurinn hafi brosað og sagt: „Þetta eru næstum því allar plöntur.“

Brynhildur bendir á lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, en þar segir í annarri málsgrein 19. greinar:

„Kirkjugarðsstjórnir skulu stuðla að því að legstaðir séu smekklega prýddir blómjurtum og vel um þá hirt.“

Samræmi skorti á milli þess sem garðyrkjufræðingurinn sagði og laga um kirkjugarða.

Fleiri lent í svipuðu

„Við systurnar erum mjög leiðar yfir þessu. Mér er svakalega misboðið. Viðbrögðin sem ég er að fá frá vinum mínum eru á eina lund,“ segir Brynhildur, sem sagði frá atvikinu á Facebook-síðu sinni.

Hún segir að af viðbrögðunum að dæma virðist fleiri en Brynhildur og systur hennar hafa lent í svipuðum atvikum.

„Mér finnst það svolítill skandall,“ segir Brynhildur.

Rekstrarhagfræðingurinn Brynhildur Bergþórsdóttir.
Rekstrarhagfræðingurinn Brynhildur Bergþórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert