„Verðhækkanir á dagvöru og matvöru eru áhyggjuefni, þar sem ástæður þeirra hækkana eru alls óljósar. Því virðist sem verslanir, fyrirtæki eða birgjar fleyti kostnaðarhækkunum beint út í verðlag, sem þrýsti þannig upp álagningu sem er mikið áhyggjuefni,“
Þetta segir Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), í samtali við mbl.is um niðurstöður nýrra verðbólgumælinga. Verðbólga mældist nú um 6,3%, samanborið við 5,8% í síðasta mánuði, en þar af hækkaði matvöruverð nú um 1,1%.
„Við höfum ekki verið bjartsýn á verðbólguhorfurnar, en spár okkar nú í mars gerðu ráð fyrir að hún myndi mælast um 5,8% í lok árs og 3,5 % ef horft væri framhjá húsnæðiskostnaði. Það eru því mikil vonbrigði að sjá okkar spár raungerast útfrá nýjum niðurstöðum verðbólgumælinga í dag, og við hefðum viljað sjá töluvert hraðari hjöðnun á verðbólgunni,“ segir Róbert.
Róbert tekur auk þess undir með Samtökum atvinnulífsins um að nauðsynlegt sé að lækka stýrivexti, þrátt fyrir að verðbólga hafi ekki mælst lægri en ella, þar sem skýr merki séu um kólnun í hagkerfinu.
„Hvað langtímahorfur varðar, hefur verkalýðshreyfinguna verið skýr með það, að forsendur fyrir vaxtalækkunum eru til staðar, sérsaklega í ljósi þess hve aðhald peningastefnunnar hefði verið mikið. Hagkerfið kólnar nú hratt, og kjarasamningarnir styðja við hjöðnun verðbólgunnar, og þær forsendur eru enn óbreyttar frá því að kjarasamningarnir voru undirritaðir.“ segir Róbert.
„Hinsvegar höfum við nú áhyggjur, að ríkjandi hávaxtastig muni auka framboðsvanda á húsnæðismarkaði þar sem umsvif þar hafa dregist verulega saman. Ef hagkerfið heldur áfram að kólna of hratt getur svo það m.a. leitt til aukins atvinnuleysis,“ segir Róbert og bætir við að lokum:
„Seðlabankinn á því að vera framsýnn, og einblína ekki um of á verðbólguna í dag, heldur hvert hún stefnir. Því teljum við vissulega að hann ætti að skoða lækkun vaxta frekar,“.