Skorar á verslunina í landinu að gera betur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, segir nýjustu verðbólgumælingar vonbrigði og skorar á verslunina í landinu að gera betur.

Það gerir hann í færslu á Facebook-síðu sinni.

Samfélagið þurfi að leggjast á árarnar til að ná verðbólgu niður

„Það sem helst olli aukinni verðbólgu voru hækkanir á smávöru, mat og drykk. Þá voru útsölur lakari en gert hafði verið ráð fyrir. Við þetta verður ekki unað,“ segir í færslunni.

Hann segir allt samfélagið þurfa að leggjast á árarnar til að ná verðbólgu niður svo lækka megi vexti, og segir verslunina líka þurfa að taka það til sín.

Hann segir launafólk hafa gert sitt með því að undirrita kjarasamninga til fjögurra ára sem geri ráð fyrir hóflegum launahækkunum með verðstöðugleika að markmiði.

Ríkisstjórnin forgangsraðar með hag almennings í huga

„Ríkisstjórnin gerir líka sitt og fer fram með aðhaldssöm fjárlög og á sama tíma létt er undir með heimilunum til að mynda með hækkun húsnæðisbóta, barnabóta og gjaldfrjálsum máltíðum í grunnskólum. Þannig forgangsraðar ríkisstjórnin með hag almennings, og sérstaklega lágtekjufólks, í huga,“ segir í færslunni.

„Verslunin í landinu getur ekki verið stikkfrí og verður að leggja meira af mörkum til að vinna að þessu stærsta samfélagsverkefni nú um stundir, að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ég skora því á verslunina að gera betur,“ segir í færslunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert