„Það þarf að vera fullkomið gagnsæi um þessi kaup“

Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og sérfræðingur í siðfræði, segir fullkomið …
Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og sérfræðingur í siðfræði, segir fullkomið gagnsæi þurfa um kaup Höllu Tómasdóttur, verðandi forseta Íslands, á rafbíl hjá Brimborg. Samsett mynd

Umdeild rafbílakaup Höllu Tómasdóttur, verðandi forseta Íslands, og auglýsing þeirra eru „aug­ljós­lega á gráu svæði“, segir sérfræðingur í siðfræði.

Bílaumboðið Brimborg auglýsti kaupin á Facebook síðu sinni. Þar var mynd af Höllu, Birni Skúlasyni, verðandi forsetaherra, þar sem þau tóku á móti rafbílnum. 

Auglýsingunni var síðan eytt eftir að hún varð að umfjöllunarefni fjölmiðla. Halla fékk afslátt af bílnum en eðli afsláttarins er enn óljóst.

„Þetta er alveg augljóslega á gráu svæði eins og þetta lítur út, en það er samt ekki hægt að fullyrða neitt á meðan við vitum lítið,“ segir Henry Alexander Henrysson, heimspekingur og sérfræðingur í siðfræði. 

Greiði sem kannski öðrum standi ekki til boða

Halla sagðist í tilkynningu sem hún sendi frá sér að hún hefði ekki fengið sérkjör heldur hafi hún fengið „staðgreiðsluafslátt“. Brimborg segir að hún hafi fengið afslátt sem viðgangist hjá þeim sem hafi verið í tengslum við Brimborg lengi. 

„Ef þetta eru einhvers konar sérkjör, þá er hún farin að njóta greiða sem kannski öðrum stendur ekki til boða í krafti stöðu hennar,“ segir Henry.

Þá vekur einnig athygli að Eg­ill Jó­hanns­son, for­stjóri Brim­borg­ar, sé efstur á lista yfir þá sem er boðið er að vera við setn­ingu Höllu í embætti for­seta Íslands. Að honum undanskildum væri listinn í fullkominni stafrófsröð.

Egill segist í samtali við mbl.is hafa þekkt Höllu frá því hún var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á árunum 2006-2007 en lýsti sér aðeins sem „kunningja“ hennar.

Halla í sinni stöðu ætti ekki að nýta sér sérkjör

„Það þarf að vera fullkomið gagnsæi um þessi kaup,“ segir Henry.

Hann segir sérkjör frægs fólks algeng, til að auglýsa vörur en að Halla í sinni stöðu ætti ekki að nýta sér þau.

„Þarna er manneskja sem að gengur ekki að sé að nýta sér stöðu sína að fá sérkjör eftir að hafa verið kjörin af þjóðinni. Nema við vitum ekki nákvæmlega hver kjörin voru, eða hvort þau hafi verið sérkjör,“ segir Henry. 

Fjöldi óskráðra siðareglna gilda um embættið

Finnst þér þurfa skráðar siðareglur um embætti forseta Íslands?

„Ég held að það séu allir sammála um það að það er fjöldi siðareglna sem gilda um embættið sem hafa þróast í gegnum árin, svokallaðar óskráðar siðareglur,“ segir Henry.

Hann segir siðareglur almennt skráðar til þess að tryggja samræmi hjá hópi fólks, sem þurfi á samræmingu að halda.

„Embætti forseta Íslands er svo einstakt. Þetta er ekki einhver hópur heldur einstaklingur, og það er gríðarleg umræða í aðdraganda þess að einhver tekur við embættinu um þær skyldur og þau réttindi sem fylgja því og hvaða viðmið beri að hafa í huga,“ segir Henry.

Henry segir að sér finnist ekki þurfa að skrá siðareglur um embættið. „Þetta er bara embætti einstaklings og það er mikill samhljómur um hvaða viðmið og reglur gilda, hvort sem þær eru skráðar eða ekki,“ segir hann.

Ekki hægt að skorast undan því að svara

Hann segir Höllu vera komna í ákveðna stöðu eftir að hafa verið kjörin sem næsti forseti Íslands og að hún þurfi að hegða sér í samræmi við það.

Halla hefur ekki svarað fyrirspurnum mbl.is í tengslum við málið. Í raun hefur enginn íslenskur fjölmiðill tekið viðtal við Höllu frá því degi eftir að hún var kjörin forseti.

Halla segist forðast fjölmiðlaviðtöl „[a]f virðingu við sitjandi forseta“ en fór vissulega í viðtal við CNN á dögunum þar sem hún ræddi skotárásina á Donald Trump. Íslenskir fjölmiðlar náðu aftur á móti ekki tali af tilvonandi forseta um það mál.

„Mér finnst ekki skipta stórmáli hvort hún sé búin að taka við embætti eða ekki,“ segir Henry.

„Það er ekki hægt að skorast undan því að svara fyrir þetta finnst mér,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert