Hermálasérfræðingar Atlantshafsbandalagsins (NATO) hafa að undanförnu lagt mat á kostnað við að endurskipuleggja varnargetu bandalagsins, sem er ábótavant um margt. Ljóst er að sá kostnaður er gríðarlegur og er rætt um að hækka þurfi það lágmarksviðmið sem aðildarríki NATO verja til varnarmála. Það er nú 2% en af 32 aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins ná 23 ríki þessu lágmarki.
Íslandi ber ekki skylda til þess að ná upp í fyrrnefnt lágmark enda herlaust land. Það vakna þó ýmsar spurningar um stöðu Íslands innan bandalagsins þegar aukin útgjöld aðildarríkja eru annars vegar.
Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikla umræðu hafa komið upp á NATO-þinginu um hækkun á framlagi aðildarríkjanna upp í 2,5% eða jafnvel 3% af vergri landsframleiðslu.
Hvað Ísland varðar átti önnur aðildarríki bandalagsins sig á sérstöðu okkar, meðal annars hvað varði stærð og landfræðilega legu, ásamt því að starfi Íslendinga í þágu Úkraínu sé vel tekið. Því sé mikill skilningur á því að Ísland leggi aðeins til um 0,11% af VLF beint til bandalagsins. Ef framlag Íslands væri 2% myndi það kalla á aukningu sem svarar til um 85 milljarða króna frá Íslandi til varnarmála.
„Að bæta við 85 milljörðum væri risaverkefni og ég held að það sé ekki raunhæft að það hafist en við getum gert svo margt til þess að styrkja okkar samstarf við vinaþjóðir í Atlantshafsbandalaginu. Eðlilegasta fyrsta skref væri að móta stefnu í varnar- og öryggismálum og síðan held ég að bæta þurfi björgunargetuna, sérstaklega í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar,“ segir Njáll.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, mánudag.