Sigmundur: „Það má ekki verða niðurstaðan“

Sigmundur grípur til varna fyrir Helga.
Sigmundur grípur til varna fyrir Helga. Samsett mynd

„Það má ekki verða niðurstaðan að Helgi Magnús Gunnarsson verði hrakinn úr embætti vararíkissaksóknara að kröfu öfgamanna,“ skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í færslu á Facebook. 

Eru þetta viðbrögð hans við fréttum þess efnis að ríkissaksóknari hafi óskað eftir því við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að Helgi verði tímabundið leystur frá störfum vegna kæru frá Solaris-samtökunum.

„Maðurinn hefur mátt þola margra ára hótanir gagnvart sjálfum sér og fjölskyldu sinni án eðlilegra viðbragða eða stuðnings frá yfirvöldum,“ skrifar Sigmundur. 

Solaris kærði Helga

Helgi hef­ur rætt við fjöl­miðla vegna máls Mohamad Th. Jó­hann­es­son­ar, áður Kourani, sem hef­ur ítrekað haft í hót­unum við Helga og fjöl­skyldu hans.

Í viðtali við Vísi sagði hann að Mohamad væri ýkt dæmi, en verið væri að flytja fjölda fólks inn í landið sem væri með öðruvísi menningu en því sem Íslendingar ættu að venjast.

„Það eina sem stoppar þá er hnefinn, valdbeiting. Ekki er alls staðar sú sama afstaða til laga og réttar og hjá okkur. En við verðum að sætta okkur við það,“ sagði Helgi í samtali við Vísi um hópa hælisleitenda. 

Stjórn Sol­ar­is kærði Helga meðal annars vegna þessara um­mæla.

Skorar á Guðrúnu

Sigmundur segir Helga hafa gert lítið annað en að benda á þá hættu sem samfélagið allt stæði frammi fyrir.

„Hættu sem stjórnkerfið virðist að miklu leyti vera algjörlega sofandi gagnvart,“ skrifar Sigmundur.

Hann skorar á Guðrúnu Hafsteinsdóttur að fallast hvorki á varanlega né tímabundna lausn Helga frá störfum.

„Það er hlutverk stjórnkerfisins að verja borgarana. Ef stjórnvöld bugast gagnvart valdbeitingu erum við komin í samfélagslegt þrot,“ skrifar Sigmundur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka