Helgi: Áminningin „núll og nix“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari er ósam­mála því að um­mæli hans á op­in­ber­um vett­vangi hafi varpað rýrð á störf hans. Hann seg­ir rík­is­sak­sókn­ara ekki hafa verið í stöðu til að veita hon­um áminn­ingu vegna þeirra né til að leysa hann frá störf­um. Hann hyggst leita rétt­ar síns vegna máls­ins.

Greint var frá því í gær að Helgi hefði verið leyst­ur frá störf­um tíma­bundið vegna kæru sem hann á yfir sér frá hjálp­ar­sam­tök­un­um Sol­ar­is. Stjórn hjálp­ar­sam­tak­anna kærði Helga vegna um­mæla sem hann lét falla um inn­flytj­end­ur, flótta­fólk og sam­tök­in sömu­leiðis.

Þótti ekki hafa bætt ráð sitt

Í svari Sig­ríðar J. Friðjóns­dótt­ur rík­is­sak­sókn­ara við fyr­ir­spurn mbl.is um mál­efni Helga seg­ir að hún hafi veitt hon­um áminn­ing­ar­bréf­ árið 2022 þar sem fram hafi komið að niðurstaða rík­is­sak­sókn­ara væri að með tján­ingu sinni, um­mæl­um og orðfæri í op­in­berri umræðu, hafi hátt­semi Helga Magnús­ar utan starfs hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ara verið ósæmi­leg og ósam­rýman­leg starfi hans og að sú hátt­semi hafi varpað rýrð á störf hans sem vara­rík­is­sak­sókn­ara, á embætti rík­is­sak­sókn­ara og ákæru­valdið al­mennt.

Var Helga gef­inn kost­ur á að bæta ráð sitt með því að ít­reka ekki ávirðing­ar eða hátt­semi af því tagi sem lýst var í bréf­inu.

Að öðrum kosti gæti það leitt til þess að hon­um yrði veitt lausn frá embætti. Að mati rík­is­sak­sókn­ara bætti Helgi Magnús ekki ráð sitt og var það ástæða þess að máli hans var vísað til dóms­málaráðherra á dög­un­um.

Orðin vel val­in

„Þessi síðustu orð mín voru nú þannig séð ósköp vel val­in. Ég lít nú ekki svo á að þó að maður segi sann­leik­ann um ein­hverja stöðu þá sé það eitt­hvað sem ekki megi segja. Síst af öllu að við sem þekkj­um til og erum að vinna í þessu kerfi meg­um ekki tjá okk­ur,“ seg­ir Helgi, innt­ur eft­ir viðbrögðum við skýr­ing­um Sig­ríðar.

Orðin sem Helgi vís­ar þar í eru um­mæli um inn­flytj­end­ur frá Mið-Aust­ur­lönd­um sem hann lét falla í viðtali við Vísi. Þar sagði hann: „Það eina sem stopp­ar þá er hnef­inn, vald­beit­ing.“ 

Áminn­ing­in frá ár­inu 2022 sem Sig­ríður tal­ar um í svari sínu var hins veg­ar vegna um­mæla Helga um flótta­fólk og sam­kyn­hneigða karl­menn.

Hef­ur ekki vald til að veita áminn­ing­ar

Helgi seg­ir að áminn­ing­in hafi ekki átt við lög að styðjast því aðeins dóms­málaráðherra sem skip­ar í embættið sé í stöðu til að veita slíka áminn­ingu.

„Sá sem veit­ir stöðuna veit­ir áminn­ingu sem get­ur verið und­an­fari lausn­ar frá starfi. [Sig­ríður] hef­ur að mínu viti ekk­ert vald til að veita áminn­ing­ar til ráðherra­skipaðs emb­ætt­is­manns. Þannig að hún er núll og nix, þessi áminn­ing, að mínu viti.“

Hann bæt­ir við að hann hafi á sín­um tíma ákveðið að fara ekki í mál til að fá áminn­ing­una ógilda til að „klæða vopn­in“.

Veit ekki hvort hann megi mæta

Þá tek­ur Helgi sömu­leiðis fram að það sé ekki und­ir Sig­ríði komið að leysa hann frá störf­um hvort sem það sé tíma­bundið eða var­an­lega.

„Það er í hönd­um ráðherra að leggja það fyr­ir sér­staka nefnd í sam­ræmi við 27. grein starfs­manna­laga sem er skipuð ein­hverj­um sér­fræðing­um sem munu þá fjalla um til­efni þeirr­ar beiðni,“ út­skýr­ir Helgi og bæt­ir við að hon­um finn­ist ólík­legt að dóms­málaráðaherra fari í þá veg­ferð „vegna ein­hverja svona nú­ansa sem er verið að gera allt of mikið úr“.

Munt þú þá halda áfram störf­um þangað til ráðherra myndi mögu­lega aðhaf­ast eitt­hvað slíkt?

„Ég veit það ekki. Sig­ríður til­kynnti það nú að ég þyrfti ekki að mæta í vinn­una.“

En máttu mæta í vinn­una?

„Ég bara veit það ekki. Alla vega er ekki óskað eft­ir því að ég sinni starf­inu og vænt­an­lega get­ur hún gert það sem yf­ir­maður en hún verður þá bara að borga mér laun fyr­ir að sitja heima. Mér finnst það nú ekki farið vel með fjár­muni rík­is­sjóðs að standa í svo­leiðis leik­ara­skap.“

Ætlar að leita rétt­ar síns

Spurður hvort hann muni leita rétt­ar síns vegna máls­ins seg­ir Helgi: „Al­gjör­lega, ef að því kem­ur [...] að þetta verði lagt fyr­ir þessa nefnd þá hef­ur þar minn lögmaður tæki­færi á að verj­ast þess­ari kröfu og það væri fyrsti vett­vang­ur­inn til að taka til varna.“

Helgi dreg­ur ekki aðeins lög­mæti fram­göngu Sig­ríðar í mál­inu í efa held­ur er hann líka ósátt­ur með hvernig komið var fram við hann í tengsl­um við það en marg­ir vinnu­fé­lag­ar hans fréttu af lausn Helga frá störf­um á und­an hon­um sjálf­um.

„Ég er í sum­ar­leyfi og sá þenn­an póst ekki fyrr en rúm­um klukku­tíma eft­ir að hann var birt­ur. Það var ekk­ert sam­tal og eng­in aðvör­un. Við erum búin að vinna sam­an með hlé­um í 25 ár. Ég hefði nú bú­ist við sím­tali eða ein­hverju öðru áður en ég fékk þenn­an tölvu­póst og áður en mér var til­kynnt um þetta. Það er al­gjör­lega fyr­ir neðan all­ar hell­ur hvernig hún stóð að þessu. Mjög óvandað og ég er mjög ósátt­ur við þetta.“

Um­mæl­in auka­atriði

Að lok­um tel­ur Helgi að um­mæl­in um inn­flytj­end­ur frá Mið-Aust­ur­lönd­um sem hafi sett þessa at­b­urðarás á stað hafi verið al­gjört auka­atriði í stærra sam­hengi.

Um­rædd um­mæli lét Helgi falla í viðtali við Vísi um hót­an­ir sem hann og fjöl­skylda hans hafa sætt síðustu ár af hálfu af­brota­manns­ins Mohamads Th. Jó­hann­es­son­ar, áður Kourani.

„Það sem þetta snýst nátt­úru­lega um eru hót­an­ir sem ég og fjöl­skyld­an mín hafa setið und­ir í lang­an tíma. Ég skoða sím­ann minn í hvert skipti sem það koma skila­boð um að það sé ein­hver upp við húsið heima hjá mér í mynda­vél­um sem eru með hrey­fiskynj­ur­um og ég er bú­inn að vera und­ir þessu álagi í þrjú ár. [...] Þetta sner­ist nú um það, þetta viðtal, þetta var nú auka­atriði sem kom þarna fram og ég veit ekki af hverju það er orðið eitt­hvert aðal­atriði,“ seg­ir Helgi.

Hefði verið betra að þegja

Þá seg­ir hann Sig­ríði ekki hafa sýnt hót­un­um, og því álagi sem þær hafi valdið, skiln­ing.

„Það hef­ur aldrei verið neitt atriði hjá Sig­ríði að ég hafi verið und­ir þess­um hót­un­um eða að hún eigi að sýna því ein­hvern stuðning eða skiln­ing. Það er eins og að það sé bara hluti af mín­um starfs­skyld­um að sitja und­ir þessu. Ég hef auðvitað verið mjög ósátt­ur við það og núna þegar ég tjái mig um þetta þá er eitt­hvert auka­atriði orðið eitt­hvert aðal­atriði í henn­ar huga, að ég hafi ekki orðað þetta nógu pent eða hvað.“

Að lok­um út­skýr­ir Helgi að ef til vill hafi það verið álagið sem hót­an­irn­ar ollu og sú staðreynd að þær beind­ust að fjöl­skyldu hans að hann hafi orðað hlut­ina eins og hann gerði.

„Ég átta mig á því að þótt maður telji sig vera mik­inn nagla þá hef­ur slíkt áhrif á mann því það er ekk­ert dýr­mæt­ara en börn­in mans og fjöl­skylda. Og ég bara átta mig á því að það get­ur verið aðeins styttri í manni þráður­inn þegar slíkt er.“

Sérðu þá eft­ir um­mæl­un­um?

„Það hefði nú kannski verið ein­fald­ara að vera ekki að gefa fólki færi á ein­hverj­um upp­hlaup­um og lát­um. En það er ekk­ert í þess­um um­mæl­um sem ég tel rangt eða meiðandi eða ein­hvers kon­ar hat­ursorðræða. Og í raun­inni skrýtið að þurfa að standa í því að vera að svara fyr­ir eitt­hvað sem er í raun ekk­ert nema sann­leik­ur­inn sem all­ir þekkja. En fyr­ir þæg­inda sak­ir væri kannski betra að þegja eins og all­ir gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert