Þórður Snær hættir sem ritstjóri Heimildarinnar

Þórður Snær Júlíusson blaðamaður og nú fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar.
Þórður Snær Júlíusson blaðamaður og nú fyrrverandi ritstjóri Heimildarinnar. mbl.is/Hari

Þórður Snær Júlíusson hefur látið af störfum sem ritstjóri Heimildarinnar.

Hann greinir frá þessu í Facebook-færslu. Þórður stofnaði fjölmiðilinn Kjarnann árið 2013 en miðillinn sameinaðist Stundinni árið 2022 og úr varð Heimildin. 

„Nú er kominn tími til að skipta um takt,“ skrifar Þórður en hann hefur starfað sem ritstjóri Heimildarinnar ásamt Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, sem var áður ritstjóri Stundarinnar.

„Enginn er ómissandi og það kemur alltaf einhver í manns stað. Heimildin er á góðu róli, búin að fara í gegnum tímabil umbreytinga og uppbyggingar, orðinn mikilvægur miðill í íslensku samfélagi og finna ákveðinn stöðugleika sem mun án efa nýtast til enn frekari vaxtar.“

Blendnar tilfinningar

Þórður segist fyrir nokkru hafa tilkynnti stjórn Sameinaða útgáfufélagsins, sem gefur út Heimildina, að hann hugðist láta af störfum sem ritstjóri fjölmiðilsins.

„[S]ú niðurstaða formgerðist í dag. Nú tekur við yfirlega um hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ skrifar hann.

„Það er auðvitað skrýtið að kveðja eitthvað sem maður hefur tekið svona mikinn þátt í að skapa og lagt svona mikið í. Og það örlar eðlilega á blendnum tilfinningum.“

„Brjáluð vegferð“

Hann kveðst aftur á móti sannfærður um að ákvörðunin sé rétt skref á þessum tímapunkti.

„[Ég] finn fyrst og síðast fyrir ofsalegu þakklæti og stolti yfir að hafa fengið tækifæri til að fara í þessa brjáluðu vegferð sem stofnun á litlum og gagnrýnum aðhaldsfjölmiðli, í afar skökku samkeppnisumhverfi innan örsamfélags, er,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn.

„Takk allt það ótrúlega hæfileikaríka og skemmtilega fólk sem tókuð þátt í þessu verkefni í gegnum árin, hvort sem það var sem samstarfsmenn, hluthafar eða í öðrum mikilvægum hlutverkum. Kynnin, samstarfið og vinskapurinn við ykkur, sem ég sit vonandi uppi með það sem eftir er, er það dýrmætasta sem ég tek út úr þessu öllu saman,“ bætir hann við.

„Þið vitið hver þið eruð.“

Hvað tekur við?

Þórður tekur ekki sérstaklega fram í færslunni hver ástæða starfsloka sinna er. 

„Þetta er starf sem gefur mikið, en tekur auðvitað mikið líka,“ skrifar hann en blaðamannaferill Þórðar hefur vissulega verið líflegur síðustu ár.

Blaðamenn Heimildarinnar hafa að undanförnu þurft að sæta rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi í tengslum við umfjöllun miðilsins um „skæruliðadeild“ Samherja. Þórður hefur stöðu sakbornings í málinu.

Þá hefur hann einnig átt í lagalegum deilum við Pál Vilhjálmsson bloggara sem var nýlega sýknaður í meiðyrðamáli sem Þórður og Arn­ar Þór Ing­ólfs­son, blaðamaður á Heimildinni, höfðuðu gegn Páli. Þeir hyggjast vísa málinu til Hæstaréttar.

Og eins og hann segir í færslu sinni er enn óljóst hvað tekur við eftir þessa rúmlega áratugs reynslu sem ritstjóri og enn lengri reynslu sem blaðamaður. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert