Gatnamót Oddeyrargötu og Brekkugötu á Akureyri hafa verið máluð rauð með það að markmiði að hægja á umferð og búa til svokallað sameiginlegt svæði, eða „shared space“ eins og það er kallað á vef bæjaryfirvalda.
„Rauður litur á gatnamótunum er til marks um að við taki hverfi þar sem vélknúin ökutæki njóta ekki forgangs umfram aðra ferðamáta og er þar um svokallað "shared space" að ræða,“ segir í tilkynningu á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Er þetta gert með því að hella endingargóðri rauðri málningu yfir malbikið og bera ofan í hana rautt kurl sem gerir fletina áferðarfegurri, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Til útskýringar segir að slík afmörkun rólegri hverfa tíðkist víða erlendis og er fólki bent á að lesa um slík hverfi á síðunni Project for Public Spaces, þar sem er að finna upplýsingar á ensku um hugmyndafræðina á bak við verkefnið.
Málningin á því að vera til marks um að vélknúin ökutæki njóti ekki forgangs umfram aðra ferðamáta. Má því ætla að markmið Akureyrarbæjar sé að minna vegfarendur á að fara varlega og taka tillit til annarra í umferðinni.
Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar er um tilraunaverkefni að ræða.