Guðmundur Ingi: „Þetta er áhyggjuefni“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, segir lítið fylgi flokksins áhyggjuefni en bindur vonir við kosningaveturinn sem er framundan. Hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram til áframhaldandi formanssetu á landsfundi flokksins í október.

Í nýrri skoðanakönnun Gallup mælast Vinstri græn með 3,5% fylgi og myndu ekki ná manni inn á þing.

Munu skerpa á áherslunum í vetur

„Þetta er áhyggjuefni en ég bind að sjálfsögðu vonir við það að við erum að fara inn í kosningavetur þar sem við munum skerpa á okkar áherslum,“ segir Guðmundur Ingi spurður hvernig þessar tölur blasi við honum.

Flokkstjórn mun funda í mánuðinum en stefnt er á að halda landsfund í október. Þar verður ný forysta flokksins kosin og stefnumál sett á dagsskrá. 

Guðmundur Ingi væntir að áherslan muni liggja í náttúrumálum, loftslagsmálum, mannréttindamálum, jafnréttismálum og styrkri efnahagsstjórn.

Óviss um framboð

Spurður hvort að lélegt fylgi flokksins sé ekki endurspeglun á því að flokkurinn hafi ekki verið að standa sig nægilega vel í umræddum málaflokkum eða þá að þjóðin hafi takmarkaðann áhuga á þeim segist Guðmundur frekar „líta á það hver árangurinn er“.

„Við höfum skilað ýmsum góðum málum í höfn og ég nefni hérna breytingar á örorkukerfinu. En auðvitað þarf að leggja þessi verk okkar í dóm kjósenda en ég held að kosningar snúist líka alltaf um hvað það er sem viðkomandi stjórnmálaflokkar sjái fyrir sér að gera í framhaldinu.“

Spurður hvort hann muni bjóða sig fram til áframhaldandi formannssetu segir Guðmundur Ingi: „Ég er nú bara ekki búinn að ákveða það, það kemur bara í ljós.“

Eðlilegt að ríkisstjórnin sitji áfram

Í könnun Gallup kom sömuleiðis fram að ríkistjórnin nyti aðeins stuðnings 27% þjóðarinnar.

Guðmundur segir að ekki sé óeðlilegt að ríkisstjórnin starfi áfram þrátt fyrir þennan litla stuðning á meðan hún er enn með meirihluta á þinginu.

„Ég tel það ekki óeðlilegt í ljósi þess að við erum með þetta umboð og auðvitað eru ákveðin verkefni sem við erum ennþá að vinna að á grundvelli stjórnarsáttmálans. Auk þess eru enn áskoranir í efnahagsmálum sem þessi ríkisstjórn hefur áhuga á að halda áfram með,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert