„Þessar fylgistölur við Sjálfstæðisflokkinn eru augljóslega ekki það sem við viljum sjá,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Blaðamaður ræddi við Þórdísi að ríkisstjórnarfundi loknum en nýjasta könnun Gallup sýnir sögulega lágt fylgi hjá Sjálfstæðisflokknum eða um 17,2%. Stuðningur við ríkisstjórnina sjálfa mældist 27%.
Spurð hvað kunni að liggja að baki slöku fylgi flokksins vísar ráðherrann til þess að stuðningur við ríkisstjórnina sjálfa sé tiltölulega lítill og það tvennt hangi að sjálfsögðu saman.
Það séu ekki neinar fregnir að skiptar skoðanir séu á ýmsum málefnum innan ríkisstjórnarinnar og að margir kjósendur vilji að Sjálfstæðisflokkurinn tali hærra og skýrara fyrir málefnum á borð við útlendingamál, orkumál og ríkisfjármál.
Verkefnin og tíðarandinn í dag séu ólík þeim sem voru var þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir sjö árum. Verðbólgan sé of mikil og vaxtastig of hátt og það sé farið að rífa í hjá heimilum og rekstraraðilum sem vilji sjá breytingar þar á.
„Ég tel mig skynja og skilja eftir hverju fólk er að kalla og það verða að öllum líkindum töluverðar breytingar þegar nær dregur að kosningum og það hvert þessir flokkar stefna, þar á meðal þessir stjórnarflokkar sem munu stefna í mjög ólíkar áttir.“
Hún nefnir þó að það sé ekki óalgengt að fylgi mælist lægra eftir svo langt stjórnarsamstarf. Það breyti því ekki að ríkisstjórnin hyggist klára þau verkefni sem séu fyrir höndum.
„Það er ekkert launungamál að ég vil sjá Sjálfstæðisflokkinn fara meira til hægri,“ segir Þórdís.
Með því eigin hún við að ríkið taki til í ríkisrekstri, gegni hlutverki trúverðugs bandamanns í alþjóðasamstarfi, skýri reglur um málefni hælisleitenda á Íslandi og létti á regluverki til að auðvelda fólki að skapa verðmæti.
„Á þessum málum höfum við oft á tíðum töluvert aðrar skoðanir.“
Spurð hvort henni myndi hugnast annað ríkisstjórnarsamstarf eftir næstu kosningar og þá með hægrisinnaðri flokkum svarar hún auðvitað sé það eftirsóknarvert að vinna með flokkum sem séu nær manns eigin hugmyndafræðilega.
Þjóðin hafi aftur á móti kosið með þessum hætti fyrir þremur árum og þessir þrír flokkar hafi orðið við því að endurnýja stjórnarsamstarfið. Enn sé nokkuð í næstu kosningar og þá verði að koma í ljós hvað úr verður.
„Þetta verður allt annars konar kosningabarátta næst heldur en var síðast. Það liggur fyrir að flokkar munu hver fara í sína átt og fólk þarf að svara fyrir hvers konar stjórnarmyndun það mun vilja.“