„Ekkert afgerandi bongó í kortunum“

Búist er við íslensku suddaveðri út sumarið.
Búist er við íslensku suddaveðri út sumarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekkert sem svona æpir sumar og sól núna,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um veðrið næstu vikur.

„Það er svolítið skýjað og bleyta með köflum í kortunum næstu daga, næstu vikur, þannig að það er ekkert afgerandi bongó í kortunum,“ segir Hrafn. Tekur hann þó fram að ágústmánuður sé bara rétt að fara af stað og því sé ekki tilefni til að hafa miklar áhyggjur.

„Þetta er bara meinlaust veður, svona frekar í skýjaðri kantinum en það gæti nú samt alveg sést til sólar á þriðjudag og miðvikudag,“ segir hann. Telur hann líklegast að góða veðrið verði þá sunnan til en eitthvað gæti líka sést til sólar á Norðausturlandi á morgun.

Hrafn segir að næstu daga sé annars búist við að þungbúið verði og svalt í veðri á Norðurlandi. Aðeins mildara og bjartara verði þó sunnan til, með einhverjum síðdegisskúrum.

Lítið um sumarveður á næstunni

Spurður hvort landsmenn megi gera ráð fyrir sumarveðri einhvern tímann á næstunni svarar Hrafn að erfitt sé að meta það. Segir hann að ekki sé sérstaklega góð spá fyrir vikuna 12.-18. ágúst, og að svölu veðri og lægð sé þá spáð.

„Maður getur eiginlega ekkert spáð almennilega mikið lengra en það,“ segir hann og bætir við að enn sé alla vega ekkert í kortunum sem gefur sterk merki um sumar og sól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert