„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé ekki ásættanlegt. Hún kveðst hafa metnað fyrir því að ná fylgi flokksins upp á landsvísu.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Dagmála.

„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt,“ segir Guðrún spurð um fylgi flokksins í könnun Gallup sem birtist 1. júlí.

Þá var fylgi flokksins 18,5%, en í könnun á dögunum mældist flokkurinn með 17,2%.

Hefur metnað fyrir því að ná upp fylginu

„Það er alltaf markmiðið að auka fylgi flokksins. Ég hef metnað fyrir því að ná betri árangri í Suðurkjördæmi heldur en við gerðum síðast og ég hef líka mikinn metnað fyrir því við náum upp fylgi flokksins á landsvísu og það þurfum við öll að gera Sjálfstæðismenn samhent,“ segir Guðrún og bætir við:

„Eins og ég sagði áðan, samfélagið hefur tekið breytingum og við þurfum vitaskuld að aðlaga okkar góðu stefnu að breyttu samfélagi.“

„Ég er eina konan í hópi öflugra karla“

Í könnun Gallup sem birtist 1. júlí fékk mbl.is niðurstöðurnar sundurliðaðar eftir kjördæmum og þar kom í ljós að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur tapað fylgi í öll­um kjör­dæm­um en þó minnst í Suður­kjör­dæmi og Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Spurð hvort að Sjálfstæðisflokkurinn sé að gera eitthvað öðruvísi í Suðurkjördæmi sem valdi því að flokkurinn tapi minna fylgi segir kveðst hún ekki vera alveg viss.

Hún segir að þingmannahópur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sé ólíkur en öflugur hópur.

„Ég er eina konan í hópi öflugra karla sem eru með með mér; Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Birgir Þórarinsson. Við vinnum mjög vel saman og það er gott á milli okkar. Ég held að það skipti máli. Við erum líka mjög öflug að sinna kjördæminu,“ segir Guðrún.

Hlutverk þingmanna að lyfta upp kjördæminu

Hún nefnir að kjördæmið sé gríðarlega stórt en samt sem áður hafi þingmönnunum tekist að finna sameiginlegan þráð í gegnum kjördæmið.

„Ég er er svo heppin að fá að vera þingmaður í Suðurkjördæmi vegna þess að Suðurkjördæmi er bara allt. Þar eigum við gríðarlega öflugt atvinnulíf, öfluga atvinnuvegi, öfluga einstaklinga sem búa sér til framtíð í anda sjálfstæðisstefnunnar með því að stofna fyrirtæki. Hvort sem það er í iðnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, eitthvað tengdu orku og svo framvegis,“ segir Guðrún.

Hún segir kjördæmið vera matarkistu Íslands og að allt sem hægt sé að hafa finnist í kjördæminu.

„Það er auðvitað okkar þingmanna kjördæmisins að lyfta upp kjördæminu, hlúa að því að fyrirtæki vilji seta sig niður, að fólki líði vel. Ég held að okkur takist það ágætlega.“

„Verið ólýsanlega sárt“

Hún segir allan þingmannahóp Suðurkjördæmis eiga hrós skilið fyrir að hafa verið samstilltur í gegnum erfiða tíma undanfarin ár.

„Við erum búin að vera með viðvarandi almannavarnarástand út á Reykjanesi. Það hefur verið ólýsanlega sárt að horfa upp á það að eitt stærsta bæjarfélag kjördæmisins þurftum við að rýma. Eitt öflugasta bæjarfélagið í kjördæminu,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert