Verslunum og fyrirtækjum er ekki óheimilt að hafna því að taka á móti reiðufé og engin lög eru til sem banna það. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir stjórn samtakanna hafa ályktað um að stjórnvöld verði að tryggja aðgengi að reiðufé og notkun reiðufjár.
„En stjórnvöld hafa ekki enn gert það,“ segir Breki.
Neytendasamtökin sendu fyrirspurn til Seðlabanka Íslands fyrir nokkrum árum um hvort verslunum væri heimilt að neita að taka á móti reiðufé og var svar Seðlabankans á þá leið að það væru engin lög sem banna það.
Hann bætir við að í svarinu hafi eitt af rökunum verið að greiðsla með kortum jafngildir greiðslu með reiðufé þar sem íslensk króna er á bak við færslurnar. Breki segir Neytendasamtökin reglulega fá ábendingar frá fólki sem var hafnað að borga með reiðufé í verslunum.
Tekin var sú ákvörðun hjá heildsölufyrirtækinu Reykjafelli að frá og með 1. september muni ekki lengur vera hægt að greiða með reiðufé fyrir vörur hjá þeim.
„95% af kúnnahópnum okkar eru fyrirtæki sem eru í reikningsviðskiptum og þetta hefur farið minnkandi á síðustu árum þannig þar var bara tekin ákvörðun um að slaufa þessu,“ segir Guðmundur Pétur Yngvason, ábyrgðarmaður viðskipta hjá Reykjafelli, í samtali við mbl.is.
Guðmundur segir að hjá Seðlabankanum komi fram að það sé undir hverjum og einum sölu- og þjónustuaðila komið hvort hann taki við reiðufé eða ekki.
Þessi ákvörðun var tekin mikla og góða íhugun segir Guðmundur og bætir við að nokkur fyrirtæki séu hætt að taka á móti reiðufé, til að mynda Ó. Johnson og Kaaber.
„Við ákváðum bara að senda frá okkur tilkynningu um þetta, til að segja viðskiptavinum okkar frá þessu þannig þeir viti af þessu áður en þeir koma. Við viljum ekki styðja við það að halda svarta hagkerfinu gangandi. Umfang svarta hagkerfisins er mikið og við ætlum ekki að taka þátt í því.“
„Það er ekki verið að hygla einum eða neinum eins og ég er búinn að vera ásakaður um í dag. Það er bara verið að létta á starfi starfsmanna hér í bókhaldi,“ segir Guðmundur og bætir við að það sé mikil ábyrgð sem fylgi því að umsýsla með peninga.