Bryndís Haraldsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segist treysta á þau kerfi sem séu til staðar til að meta stöðu fólks sem á að vísa burt hverju sinni. Mikilvægt sé að horfa til þess hvernig önnur ríki meti stöðuna og vera ekki að búa til sérreglur og -úrræði á Íslandi.
Um tuttugu Venesúelabúum sem höfðu fengið synjun um alþjóðlega vernd hér á landi var flogið úr landi í gær.
Erfið staða hefur myndast í Venesúela á síðustu árum þá sérstaklega ef litið er til slæmrar efnahagsstöðu og nýafstaðinna forsetakosninga.
mbl.is hefur rætt við tvær af þeim fjölskyldum sem til stóð að vísa úr landi, lýstu þau erfiðri stöðu í heimalandinu og biðluðu til íslenskra stjórnvalda að fá að vera á Íslandi þar til staðan í Venesúela væri orðin skýrari.
Hvernig horfir þetta við þér miðað við þá stöðu sem er í landinu, er hægt að segja að það sé öruggt að senda þetta fólk til baka?
„Ja, ég treysti kerfinu sem við höfum byggt upp, lagarammanum og þeim stofnunum sem að eiga að fylgja því. Það er auðvitað þannig að ástandið í Venesúela er ekki gott. Ég vildi svoleiðis óska að Venesúela, og heimsbyggðin öll, byggi við lýðræði og frjálsar og óháðar kosningar, en því miður þá er það bara á allt of mörgum stöðum sem staðan er ekki þannig. Þannig að það eitt og sér held ég að geti ekki flokkast sem að vera hættulegt ástand, því það er ekki þannig að allir þeir sem að búa ekki við lýðræði og frjálsar og óháðar kosningar geti sótt alþjóðlega vernd annars staðar.
Pólítíkin held ég að eigi ekki að skipta sér af málunum, við treystum lögunum og rammanum eins og hann er utan um þetta. Það er þannig í lögunum að hvert og eitt tilvik er alltaf metið fyrir sig. Auðvitað getur ástand í landi haft þau áhrif að hlutirnir breytast, og samkvæmt alþjóðasáttmálum og íslenskum lögum er fólk ekki sent í ástand þar sem að líf þeirra er í hættu. Ég bara treysti því að þær stofnanir sem eru að vinna í samræmi við okkar lög fylgi því, og ég veit að Útlendingastofnun horfir mjög til þess hvað er að gerast, horfir til þess hvernig önnur ríki eru að meta ástandið og aðrar alþjóðastofnanir og við bara bíðum og sjáum hvað kemur út úr því,“ segir Bryndís.
Þá fái allsherjar- og menntamálanefnd dómsmálaráðherra til sín á hverju ári til þess að ræða málaflokkinn enda þróist hann hratt.
Spurð hvort það væri möguleiki í stöðunni að stöðva brottvísun til ákveðinna landa á meðan að staðan sé óljós segist hún ekki halda að þvingaðir brottflutningar fari fram til Venesúela um þessar mundir.
„Ég veit ekki til þess að það séu að fara fram svokallaðir þvingaðir brottflutningar til Venesúela núna en auðvitað er fólk alltaf hvatt til þess að fara sjálfviljugt því þá þýðir það að fólk fái ekki endurkomubann og á þá tök á því að koma aftur til landsins og jafnvel þá á einhverjum öðrum forsendum. Ég held að pólitíkin ætti ekki að fara inn í þetta mál, ef aðstæður væru með þeim hætti að önnur ríki væru að meta það sem svo, þá er ég alveg viss um að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála myndi horfa til þess.“
Bryndís segist ekki þekkja hvað önnur ríki hafa verið að gera í Evrópu gagnvart Venesúela. Hún telur það mikilvægt að við séum ekki með einhverjar sérreglur og sérmeðferðir Íslandi heldur verði að horfa til þess sem meðal annars Norðurlöndin eru að gera.
„Ég treysti því að fólkið sem við þetta starfar, bæði hjá Útlendingastofnun og kærunefnd, sé bara með puttann á púlsinum á því að fylgjast með hvað er um að vera,“ segir Bryndís.
Spurð hvað sé því til fyrirstöðu að Ísland sé leiðandi í vafasömu ástandi segir Bryndís ekki ráðlegt að vera með sérreglur. Lækka þurfi hlutfall hælisleitenda hér á landi.
„Ég held að við Íslendingar höfum núna á síðustu árum verið einmitt með sérreglur, sérmeðferð fyrir ákveðna hópa og ég held að reynslan af því sé almennt ekki góð. Hlutfall hælisleitenda hér á Íslandi er mjög hátt miðað við íbúatölu og hefur verið það á síðustu árum, það er markmið okkar að ná því hlutfalli niður.“
Bryndís segir að þingmenn hafi oft farið í gegnum þessa umræðu í þinginu í tengslum við breytingar á útlendingalöggjöfinni. Hún segist vilja horfa til hinna Norðurlandanna og bæði lagaumhverfisins en líka framkvæmdarinnar þar en að við höfum ýmislegt að læra af þeim.
„Þannig að ég sem pólitíkus myndi ekki mæla með því að við færum núna af stað með einhverjar sérákvarðanir í þessum efnum en á sama tíma ítreka ég að það sé mjög mikilvægt að fylgjast með því hvað sé að gerast. Ísland hefur sjaldan eða aldrei verið með fólk á svæði til að meta ástand í einstaka ríkjum heldur höfum við notast við skýrslur sem að koma frá samstarfsríkjum okkar eða öðrum alþjóðlegum stofnunum, ég geri ráð fyrir því að það sé það sama varðandi ástandið í Venesúela. Að við fylgjumst vel með því og horfum á það hvernig ástandið er metið af þessum aðilum sem best til þess þekkja og kunna að meta ástandið.“