Ástralski breikdansarinn skaðar menninguna

Hin ástralska Rachael Gunn, betur þekkt sem Raygun, vakti mikla …
Hin ástralska Rachael Gunn, betur þekkt sem Raygun, vakti mikla athygli á Ólympíuleikunum í París. AFP

„Svona innkoma á Ólympíuleikana þar sem einhver fer upp á svið og gerir grín, það grefur undan því sem þessi jaðarmenning er búin að byggja upp alveg sjálfstætt í öll þessi ár,“ segir dansarinn og danskennarinn Brynja Pétursdóttir um framgöngu ástralska breikdansarans Rachael Gunn, eða Rayg­un, á Ólympíuleikunum í París.

Keppt var í breiki í fyrsta skipti á nýafstöðnum Ólympíuleikunum en ástralski dansarinn Raygun var án efa sá keppandi sem vakti mesta athygli í greininni, ekki fyrir hæfileika sína heldur fyrir það að þykja einstaklega léleg.

Myndbönd af frammistöðu hennar hafa notið mikilla vinsæla á samfélagsmiðlum og margir spyrja sig hvernig í ósköpunum hún hafi hlotið þáttökurétt á Ólympíuleikunum.

Felur í sér menningarnám

Brynja Pétursdóttir er einn sá Íslendingur sem þekkir hvað best til hip hop-menningarinnar sem breik fellur undir. Hún hefur rekið Dans Brynju Péturs, þar sem kenndir eru hip hop-stílar, í 20 ár og dvelur mjög reglulega í New York, heimaborg breiksins, þar sem hún á í miklu samtali við frumkvöðla og áhrifavalda innan senunnar.

Á dögunum birti hún myndband á TikTok þar sem hún gagnrýndi framgöngu Raygun og færði rök fyrir því að hún fæli í raun í sér menningarnám, það er arðrán á þáttum úr menningu undirokaðra hópa.

@thebrynjapeturs Ólympíuleikarnir. Ástralski dansarinn. Menningarnám. Spjall frá fagaðila um Street dans. Gerum betur! Ert þú með einhverjar spurningar eða vangaveltur? #fyrirþig #olympics #breaking #íslenskt #ísland @Dans Brynju Péturs ♬ original sound - Brynjapeturs

Menning sem sprettur upp úr kúgun

„Þessi ástralska kona kemur þarna inn og virðist vera að gera grín að menningunni. Hún er með doktorsgráðu í menningarfræðum og skrifaði lokaritgerðina um breik og hefur haldið við einhverjum akademískum greinabirtingum um hip hop-menninguna og breik sem er mjög vafasamt. Þarna er hún að stíga inn í akademískt umhverfi þar sem þessi menning á náttúrulega ekkert heimili og hefur ekki rætur þar,“ segir Brynja í samtali við mbl.is.

Hún bætir við að breik, sem upphaflega kemur frá Bandaríkjunum, eigi í raun rætur sína að rekja til samfélaga fólks sem er komið af þrælum og verður til vegna áframhaldandi takmarkana á tækifærum þeirra og lífsgildum

„Þetta er menning sem sprettur upp úr kúgun fólks því að hvíti nýlenduherrann kom inn og stal bæði landi og fólki til að byggja upp sitt land,“ segir Brynja og ítrekar að þess vegna þurfi að vanda sig sérstaklega þegar kemur að því að ganga inn í menninguna, til dæmis í gegnum breik.

Heimurinn geri grín að breiki

Brynja telur Raygun ekki hafa gert það og að þátttaka hennar á Ólympíuleikunum geti hreinlega reynst hip hop-samfélaginu skaðleg.

„Þetta náttúrulega bara leit út eins og þetta leit út. Þetta er náttúrulega bara kona að gera eitthvað allt annað en að breika,“ segir Brynja og bætir við:

„Hættan er sú að heimurinn horfi á þetta og geri grín að breiki, sér þetta sem eitthvað sem skiptir engu máli og er algjört húmbúkk. Því greinilega komst þessi manneskja á ólympíuleikana. Að fólk hugsi að þetta meiki engan sens og hafi enga merkingu.“

Brynja Pétursdóttir þekkir vel til hip hop-menningar en hún hefur …
Brynja Pétursdóttir þekkir vel til hip hop-menningar en hún hefur síðustu 20 ár reglulega dvalið í New York, heimaborg breiksins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekkert í lagi við það“

Þá segir Brynja að flutningur sem þessi geti orðið til þess að breikmenningin þynnist út.

„Annað áhyggjuefni er náttúrulega það að fólk haldi að þetta sé alvöru breikstíllinn og fari í raun enn frjálslegra með staðreyndir, grunnspor og tækni. Allt það sem fólkið er búið að leggja árauga vinnu og ást í að búa til,“ segir Brynja.

„Með því að kenna og standa fyrir dansstíla sem þú kannt ekki og skilur ekki þá ertu að þynna út menningu og menningararf sem fólk er búið að byggja upp í tugi ára. [...] Það er ekkert í lagi við það.“

Hefði geta verið „mómentið“

Ákvörðun Ólympíunefndarinnar um að taka breik upp sem keppnisgrein á leikunum hefur verið nokkuð umdeild en einhverjir vilja meina að þar með sé breik komið of langt frá rótum sínum og að um sé að ræða listform en ekki íþrótt.

Spurð hvort hún telji Ólympíleikana réttan vettvang fyrir breik segir Brynja: „Ég myndi persónulega segja nei.“

Hún bætir þó við að ef rétt væri staðið að keppninni verið um gott tækifæri að ræða fyrir senuna.

„Það má alveg minnast á það að þarna voru líka keppendur sem eru raunverulegir iðkenndur stílsins og eru alveg rosalega flottir dansarar. En athyglin fer af því fólki sem er raunverulega búið að vinna fyrir þessu, skyldi hjartað sitt eftir á gólfinu og er stutt af menningunni.

Þetta hefði geta verið mómentið þar sem breik væri skilgreint út frá menningunni og kæmist aftur á kortið,“ segir Brynja að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka