Magnea Marinósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur segir vert að hafa í huga að Hamas-samtökin á Gasasvæðinu séu andspyrnuhreyfing. Engin alþjóðaskilgreining sé á því hvað teljist hryðjuverkasamtök.
Magnea var gestur Dagmála nýverið til að ræða um ástandið í Ísrael og Palestínu og viðbrögð alþjóðasamfélagsins í kjölfar 7. október.
Samtökin séu uppsprottin af því að Frelsishreyfing Palestínumanna hafi viðurkennt Ísrael sem ríki, en Hamas hét því að viðurkenna ekki ríki Ísraelsmanna á meðan á hernáminu stæði enn.
Segir Magnea trúna vera það sem skilji hreyfingarnar tvær helst að en Hamas er stytting á upprunalegu nafni þeirra: Íslamska andspyrnuhreyfingin.
„Sumir eru kannski líka að styðja þeirra hugmyndafræði, en fæstir styðja stjórnarhætti þeirra út af því að þeirra stjórnarhættir á Gasa hafa alls ekki verið góðir,“ segir Magnea.
Hún segir einnig áhugavert að benda á, í tengslum við skilgreiningu samtakana, að þau hafi ekki verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Ísrael né Bandaríkjunum fyrr en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra landsins, komst til valda árið 1997.
Harðlínustefna hans gegn Hamas-samtökunum eigi sér í afar persónulega sögu en bróðir hans, David, var eini maðurinn sem féll í aðgerð sem átti að leysa yfir 100 gísl úr haldi palestínskra uppreisnarmanna og þýskra samverkamanna þeirra, sem tóku flugvél á leið frá Tel Aviv til Parísar í gíslingu og flugu henni til Úganda.
„Þannig hann á sér eiginlega persónulega sögu sem útskýrir þessa rosalegu harðlínu stefnu þegar kemur að Hamas,“ segir Magnea.
„Síðan er það ekki fyrr en 2001 eftir árás Al-Qaeda á tvíburaturnana sem að Evrópusambandið skilgreinir Hamas sem hryðjuverkasveit.“
Segir Magnea það aftur á móti ekki hafa fallið í góðan jarðveg og gerði Hamas athugasemd við að hafa verið bætt á hryðjuverkalistann.
„Það er dómstóll innan Evrópusambandsins sem kemst að þeirri niðurstöðu að þeir falla ekki undir skilgreiningar Evrópusambandsins á því að vera hryðjuverkasveit, en þeir hafa haldið áfram að vera á listanum því þeir [ESB] eru náttúrulega líka undan þrýstingi frá Ísrael og Bandaríkjunum.“
Hún segir Hamas hafa gert tilslakanir á undanförnum árum en þeir hafi til að mynda breytt orðalagi í stjórnarsáttmála sínum frá árinu 1988 sem hefur sætt gagnrýni fyrir að kveða á um að útrýma gyðingum. Sáttmálinn kveður í dag á um útrýmingu síonista og hefur gert síðan 2017.
„Þó þeir nefni ekki Ísrael á nafn að viðurkenna ríki við landamæri Palestínu, gangast inn á '67 landamærin [landamæri ríkisins fram að 1967] og hætta vopnaðri uppreisn svo fremur sem hernámið endar. Þannig þetta er ekki alveg svona svart og hvítt.“
Innt eftir því að aðrir uppreisnarmenn á borð við Nelson Mandela einnig hafi talist til hryðjuverkamanna svarar Magnea játandi og segir hann sömuleiðis hafa sætt gagnrýni fyrir vopnaða uppreisn.
„Hann var auðvitað undir miklum þrýstingi að láta af vopnaðri uppreisn en hann sagði að hann myndi ekki gera það fyrr en það ofbeldi sem fælist í aðskilnaðarstefnu væri afnumið og það sama náttúrulega gildir um Palestínumenn,“ segir Magnea.
„Það er búið að koma út álit Alþjóðadómstólsins þess efnis að aðskilnaðarstefnan sé við lýði þarna í Palestínu og að þessi aðskilnaðarveggur sem sé þarna sé ólöglegur. Landbyggðirnar síðasta álitið sem kom, lögfræðilega, var að landtökubyggðirnar væru ólöglegar.“
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á viðtalið í fullri lengd hér: