Sundahnúkagígaröðin virðist vera búin að koma sér í stellingar fyrir næsta kvikuhlaup eða eldgos. Hægst hefur á landrisi og skjálftavirknin eykst. Nú er beðið eftir forboðum eldgossins sem gætu þó gert vart við sig innan hálftíma fyrir gos.
„Það hafa alltaf verið skýr merki þegar gos fer í gang, eða kvikuhlaup fer af stað,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Flest kvikuhlaup á svæðinu á síðasta ári hafa endað með eldgosi, að undanskildum tveimur atburðum; kvikuhlaupinu hinn örlagaríka föstudag 10. nóvember, þegar Grindavík var fyrst rýmd, og kvikuhlaupinu þann 2. mars.
Eftir hverju erum við þá að bíða? „Það er mjög ákveðið: Staðbundin skjálftavirkni, oftast þarna rétt austan við Sundhnúk,“ segi Benedikt.
„Og fljótlega eftir að skjálftavirkni byrjar sjáum við breytingar í borholum í Svartsengi og einhverjum mínútum seinna förum við að sjá breytingar á GPS-mælum [sem sýna aflögun, t.d. landris].“
Þetta séu merkin sem geti sýnt áreiðanlega að kvikuhlaup sé farið af stað, þegar kvika brýtur sér leið í gegn um jarðskorpuna og annað hvort kemst upp á yfirborð eða heldur sér fyrir í jörðu niðri.
Þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku væru sterkasti forboðinn en sá fyrirvari gæti verið stuttur – jafnvel styttri en hálftími.
Síðustu vikuna hafa um 60-90 skjálftar mælst á dag í kvikuganginum undir Svartsengi og, eins og margt annað, er það vísbending um að það styttist í næsta kvikuhlaup.
„Það sem við erum að sjá núna er svæðisbundin skjálftavirkni sem er smám saman að aukast og er merki um að spennan í jarðskorpunni sé orðin há og mögulega komin að einhverjum brotmörkum, sem er þá afleiðing af því að það er kvika að safnast fyrir undir Svartsengi,“ bætir hann við.
Að undanförnu hefur hægst á landrisinu í Svartsengi, þó ekki verulega að sögn Benedikts.
„Þetta hefur oft hagað sér svona í aðdraganda eldgosa og kvikuhlaupa,“ segir hann og bætir við að þetta sé merki um að það taki kvikuna meiri vinnu að safnast fyrir í jarðskorpunni.
Líklegast þykir að næsta gos hefjist við Sundhnúkagígaröðina en Benedikt útilokar ekki að sprunga gæti opnast í Grindavík.
Einnig gæti teygst úr sprungunni. Þannig að þó svo að sprunga opnist fyrst utan varnargarðanna þá gæti ný opnast innan varnargarðanna í Grindavík, eins og sást í eldgosinu hinn 14. janúar.
„Þetta er yfirleitt að koma upp þarna rétt austan við Sundhnúk en svo opnast sprungan til norðurs og suðurs.“