Vinstri græn fordæma ákvörðun Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, um að frysta tímabundið greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).
Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna.
„Flokksráðsfundur VG fordæmir ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra Íslands að styðja atlögu Ísraelsríkis að mannúðaraðstoð á Gaza með yfirlýsingu um að frysta fjárframlög til Flóttamannaaðstoðarinnar,“ segir í ályktuninni.
Eins og fram hefur komið stöðvaði utanríkisráðuneytið tímabundið greiðslur til UNRWA í janúar eftir að grunur lék á því að starfsmenn á vegum aðstoðarinnar hafi tekið þátt í hryðjuverkaárás á Ísrael í október. Bjarni hóf svo á ný greiðslur til UNRWA í mars.
Eftir að hafa rannsakað málið tilkynntu Sameinuðu þjóðirnar í byrjun mánaðar að níu starfsmenn UNRWA hefðu „að öllum líkindum“ átt aðild að stórfelldri hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael, þann 7. október 2023, þar sem hátt í 1.200 voru myrtir, og á þriðja hundrað gíslar teknir.
Í ályktuninni eru „stríðsglæpir“ Ísraelshers á Gasa fordæmdir og viðbrögð vestrænna ríkja við stríðinu sömuleiðis fordæmd.
„Fundurinn krefst þess að Ísrael fari að alþjóðalögum, láti tafarlaust af hernaði á Gaza, yfirgefi landtökubyggðir og hætti landtöku á palestínskum svæðum,“ segir í ályktuninni.