Félagar í BÍ krefjast svara

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Ég held að okkur, sem höfum áhyggjur af þessu ástandi, finnist að það sé búið að eyða með ólíkindum,“ segir Fríða Björnsdóttir, félagi í Blaðamannafélagi Íslands til 62 ára. Hún, ásamt 25 öðrum félagsmönnum, skrifaði undir fyrirspurn sem send var til stjórnar BÍ um helgina þar sem svara er krafist um ýmis útgjöld sem stofnað hefur verið til í nafni félagsins síðustu misseri.

Flestir útgjaldaliðirnir sem hópurinn spyr út í tengjast uppsögn Hjálmars Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍ, en eftir að honum var sagt upp í byrjun árs var endurskoðunarstofan KPMG fengin til að gera úttekt á tilteknum færslum í bókhaldi félagsins. Þegar sú úttekt lá fyrir óskaði stjórn BÍ eftir áliti lögfræðistofunnar LOGOS um mögulega refsiábyrgð Hjálmars vegna háttsemi hans í starfi.

Í fyrirspurn félagsmannanna er m.a. spurt út í kostnað við þetta.

„Þú færð fyrst konu til að kanna reikninga og finna einhver glæpalíkindi, sem auðvitað voru engir glæpir. Síðan var KPMG fengið til að endurskoða tíu ár aftur í tímann. Síðan var þetta sent til lögfræðistofunnar LOGOS og svo komust þau að þeirri niðurstöðu að þetta hefði kannski ekki verið alveg í lagi en að það myndi enginn verða dæmdur fyrir það sem á að hafa verið gert. Og hvað kemur svo? Hvað hefur Blaðamannafélagið eytt miklu í þetta?“ spyr Fríða sem telur að um óeðlileg fjárútlát sé að ræða.

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður BÍ að fyrirspurnin frá félagsmönnunum sé nokkuð ítarleg en sjálfsagt sé að svara henni. Hún er þó stíluð á stjórn BÍ og verður því tekin upp á fundi hennar í næstu viku. Framhaldsaðalfundur BÍ er boðaður 4. september.

Sigríður segir útgjöldin stafa af því að stjórn BÍ hafi talið nauðsynlegt að ráðast í „gagngera endurskoðun á umgjörð og regluverki í kringum starfsemina með það að markmiði að færa rekstur félagsins í nútímalegra horf, tryggja að vel sé hugsað um eignir félagsmanna og að sjóðir þeirra séu sjálfbærir og reglur um úthlutanir styrkja gagnsæjar og skýrar“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert