Forseti ASÍ: „Þetta er verulegt áhyggjuefni“

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, segir að Seðlabankinn þurfi að gefa …
Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, segir að Seðlabankinn þurfi að gefa merki um það hvað þurfi til svo að vextir geti byrjað að lækka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum eru vonbrigði en kemur ekki á óvart. Seðlabankinn þarf að koma með leiðsögn um það hvað þurfi til svo að hægt sé að byrja að lækka vexti.

Þetta segir Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is.

„Ég var að vonast til að þeir myndu fara gefa merki út í samfélagið um það að þeir hefðu einhverja trú á efnahagskerfinu og því sem við höfum verið að gera. Vegna þess að hluti af því sem þeir eru að kvarta undan er væntingin til verðbólgunnar og ef þeir hafa ekki trú á þessu og sýna það ekki þá hefur markaðurinn það ekki heldur,“ segir Finnbjörn. 

Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða áfram 9,25% og hafa stýri­vext­ir því verið óbreytt­ir í heilt ár. 

Bankinn verði að gefa merki um hvað þurfi til

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins og ASÍ sendu frá sér sameiginlega tilkynningu í gær þar sem sagði að í at­vinnu­líf­inu væru augljós merku um að hag­kerfið væri að kólna. Þá sögðu fé­lög­in tvö því mik­il­vægt að Seðlabank­inn væri fram­sýnn þegar kem­ur að ákvörðunum um stýri­vexti.

„Ég held að ef Seðlabankinn ætlar að vera með einhverja stýringu á þessu þá geta þeir ekki látið eins og þeir séu að spila einhvern póker á blindan. Þeir verða að gefa merki um það hvernig þeir sjá stýrivaxtalækkun fara af stað og hvaða forsendur þurfa að vera svo að menn geti séð til hvers er ætlast,“ segir Finnbjörn.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kem­ur fram að horf­ur séu því á að það geti tekið nokk­urn tíma að ná fram ásætt­an­legri hjöðnun verðbólgu.

„Já, þetta er verulegt áhyggjuefni,“ segir Finnbjörn aðspurður.

Aukin einkaneysla vegna mannfjölgunar

Hann segir Seðlabankann bera fyrir sig að einkaneyslan á landinu sé að aukast en Finnbjörn segir að einkaneysla heimila sé að dragast saman. Finnbjörn segir aukna einkaneyslu megi að hluta til rekja töluverðar mannfjölgunar í landinu.

„Við erum komin í ákveðið lokað kerfi, að þeir halda uppi stýrivöxtum. Það er að hluta til út af húsnæðinu, hluta til út af væntingum og hluta til út af mannfjölgun. Þannig það er voðalega erfitt að fara inn í einhvern einn af þessum þáttum. Mér finnst að Seðlabankinn eigi að vera með einhverja leiðsögn út úr þessu kerfi,“ segir Finnbjörn.

Korta­velta ís­lenskra heim­ila hef­ur auk­ist alla mánuði árs­ins miðað við sama tíma­bil í fyrra og sam­tals um 4% það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert