„Ég mat þetta þannig að það væri ekki þörf á að við færum öll,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í Reykjavík, þegar hún er innt eftir því af hverju hún er ekki á leið í kynnisferð erlendis eins og aðrir borgarfulltrúar.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að borgarstjóri og oddvitar allra borgarstjórnarflokkanna, nema Sósíalistaflokksins, eru að áforma ferð til Malmö og Kaupmannahafnar dagana 26.-28. ágúst.
Þeir sem fara í ferðina eru Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður skipulagsráðs, Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins, Líf Magneudóttir oddviti VG, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar frá Viðreisn og embættismenn borgarinnar: Ólöf Örvarsdóttir sviðstjóri, Björn Axelsson skipulagsstjóri og Haraldur Sigurðsson deildarstjóri aðal- og svæðaskipulags.
Reykjavíkurborg greiðir fyrir starfsfólk borgarinnar og kjörna fulltrúa en ekki fyrir Betri samgöngur og þróun Keldnalands sem einnig fara með í ferðina.
Tilgangur ferðarinnar er sagður vera til að öðlast „betri skilning“ á lykilþáttum „sjálfbærrar borgarþróunar“.
Aðspurð segist Sanna ekki alveg með á nótunum hvað sé átt við með sjálfbærri borgarþróun en að hún telji að verið sé að tala um samspil almenningssamgangna út frá hverfisskipulagningu. Að uppbygging nýrra hverfa verði í nálægð við helstu þjónustuþætti svo íbúar þurfi ekki að keyra langar vegalengdir til að sækja grunnþjónustu.
Sjálf segist Sanna ekki fara í ferðina vegna mikilla anna og að þeir sem fari geti miðlað upplýsingum eftir ferðina.
Þegar Sanna er spurð að því hvort hún telji það nauðsynlegt að allir ofantaldir færu í ferðina segist hún ekki vita nákvæmlega hvað eigi að vera til umfjöllunar.
„Það er alltaf gott að sækja sér þekkingu og alveg eðlilegt, ef farið er, að gefa oddvitum annarra flokka færi á að fara.“
„Ég mat það sem svo að við þyrftum ekki öll að vera að kynna okkur þetta.“ Og segist hún einfaldlega sækja upplýsingar til þeirra eftir ferðina.
Hún telur t.d. ekki nauðsynlegt að Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, fari með í ferðina.
Hún telur ágætt að oddvitar minnihlutans fari í ferðina því það eru ólíkir flokkar með ólíka sýn. Aftur á móti segist hún ekki viss hvers vegna fulltrúar úr öllum flokkum meirihlutans þurfa að fara.
Að lokum bendir Sanna á að mikil umræða hefur skapast um slíkar ferðir og að nauðsynlegt er að taka umræðu um hvaða ferðir eru mikilvægar og hvernig þær eru skipulagðar.