Uppþornuð Kaldá ekki vandamál

Lítið vatn er í Kaldá í Hafnarfirði.
Lítið vatn er í Kaldá í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Vegfarendur í kringum Helgafell í Hafnarfirði hafa eflaust tekið eftir því að afar lítið vatn er orðið í Kaldá. Sveiflur í náttúrunni stýra grunnvatnsstöðu í ánni en hvorki er virkjun á svæðinu né stífla þótt vatnsból Hafnarfjarðarbæjar sé í Kaldárbotnum.

Frá Kaldárbotnum liggur um sex kílómetra löng aðfærsluæð meðfram Kaldárselsvegi og þaðan rennur kalda vatnið sem síðan fer eftir stofnæðum og dreifilögnum um hverfin.

Engin áhrif á vatnsbúskapinn

Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að þótt lítið sé í Kaldánni sé vatnsbólið í Kaldárbotnum í góðu lagi. Segir hann grunnvatnsstöðu í Kaldá engin áhrif hafa á vatnsbúskap Hafnarfjarðarbæjar.

Ástæðu þess hve lítið sé í ánni megi rekja til þess að rennsli hafi einfaldlega verið minna en oft áður sem skýrist meðal annars af því að minni bráðnun hafi verið í fjöllum sem geti orsakast af minni snjó í vetur. Kaldá hefur verið vatnslaus áður, til dæmis var hún vatnslaus í tvö ár þar til fór að renna í hana á ný sumarið 2011.

Guðmundur segir aðspurður að ef grunnvatnsstaða lækkar mjög mikið geti það haft áhrif á vatnsból bæjarins en ítrekar að það hafi ekki verið vandamál.

Svæðið er þó vaktað af verkfræðiþjónustu sem hefur undir höndum rennslislíkan af öllu höfuðborgarsvæðinu, að sögn veitustjórans sem ítrekar að ekki sé endilega um óeðlilega stöðu að ræða.

Kaldá í Hafnarfirði.
Kaldá í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka