Flókinn flokksráðsfundur á morgun

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar á morgun, en þó að til hans hafi verið boðað með það fyrir augum að skerpa áherslurnar á komandi þingvetri í aðdraganda kosninga að ári, þá er auðheyrt á sjálfstæðismönnum að afleitar niðurstöður í fylgiskönnun Maskínu eru þeim efstar í huga.

Samkvæmt þeirri könnun er flokkurinn nú með 13,9% fylgi á landsvísu og Miðflokkurinn kominn fram úr honum, þótt það sé raunar innan skekkjumarka og ómögulegt að segja til um forspárgildið fyrir alþingiskosningar eftir rúmt ár.

Það breytir ekki því að margir skynja þreytuna í stjórnarsamstarfinu og flokksmenn langeygir eftir að fylgistölur hans hækki. Margir sjálfstæðismenn höfðu bundið vonir við að það myndi gerast eftir að Bjarni Benediktsson tók við embætti forsætisráðherra þegar Katrín Jakobsdóttir vék úr embætti í vor, en þær hafa ekki ræst.

Á því kunna menn ýmsar skýringar. Sú augljósasta er sú að ekki hafi gengið að vinda ofan af verðbólgu líkt og í flestum grannlöndum, en fyrir vikið eru vextir enn háir og fyrir því finna flest heimili í landinu. Hverjum sem þar er um að kenna er auðveldast fyrir svarendur í skoðanakönnunum að láta stjórnarflokkana gjalda þess.

Aðrir benda á sjálft ríkisstjórnarsamstarfið; traust á milli flokka risti grunnt og ekki hægt að ætlast til þess að kjósendur hafi á því meira traust. Sumir segja raunar ósanngjarnt að skella skuldinni á Bjarna, hann hafi staðið sig bærilega í forsætisráðherrastól, en ráðherrarnir bauki hver í sínu horni og stjórnarþingmenn tali stjórnina ekki upp.

Hvernig sem því er farið þá er staðan þessi í skoðanakönnunum og það verður ugglaust gert að umtalsefni á flokksráðsfundinum á hótel Hilton Reykjavík Nordica á morgun. Talið er að um 300 manns sæki fundinn.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 30. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert