Miðflokkur fylgir fast á hæla Sjálfstæðisflokks

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokkurinn hefur aldrei áður í sögu Gallup mælst með meira fylgi en núna og er aðeins einu prósentustigi á eftir Sjálfstæðisflokknum, sem mælist með 17,1% fylgi.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Gallup, sem Ríkisútvarpið greinir frá.

Samfylkingin mælist áfram stærsti flokkur Íslands með 26,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 17,1% og Miðflokkurinn fylgir þeim fast á hæla með 16% fylgi.

Miðflokkurinn toppar sig aftur

Um er að ræða þriðja mánuðinn í röð sem Miðflokkurinn slær eigið fylgismet í könnunum Gallup, en í síðustu könnun mældist flokkurinn með 14,6% fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar litlu á milli mánaða samkvæmt Gallup og eru niðurstöðurnar ekki alveg jafn slæmar fyrir flokkinn og í könnun Maskínu á miðvikudag.

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 13,9% fylgi í könnun Maskínu.

VG áfram utan þings

Viðreisn mælist með 10,1% fylgi og Píratar 7,8% fylgi. Framsókn mælist aðeins með 7% fylgi og Flokkur fólksins mælist með 6,7% fylgi.

Vinstri græn mælast með 3,4% fylgi og næðu ekki manni inn á þing. Aftur á móti mælist Sósíalistaflokkurinn með 5,7% fylgi og næði því inn á þing.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert