„Þetta er bara mjög einlæg spurning. Við viljum bara í raun vita hver áætlunin er út úr þessu.“
Þetta segir Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar – félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, um heilsíðuauglýsingu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) í Morgunblaðinu í dag. Þá birtist auglýsingin líka á auglýsingaskiltum höfuðborgarinnar. Segir þar: „13,9% Hvað er planið?“
Óánægju yngri kynslóðar flokksins vegna sögulega lágs fylgis sér víða stað í blaðinu í dag en aðsend grein Júlíusar titluð „Áfram“ birtist þar einnig. Flokksráðsfundur flokksins fer fram á hótel Nordica í dag.
„Við þurfum að gefa minna eftir í okkar málum og láta reyna á þetta ríkisstjórnarsamstarf,“ segir Júlíus og undirstrikar mikilvægi þess að málefni flokksins verði sett á dagskrá.
„Upplifunin núna er svolítið að það sé ekki plan, eða það sé þá alla vega ekki verið að segja okkur frá því.“
En nú eru margir á vinstri vængnum sem hafa einmitt barmað sér yfir því að málefni VG hafi þurft að víkja fyrir málefnum Sjálfstæðisflokksins, sem hefur jú verið í meirihluta í þessari ríkisstjórn. Hverju svarar þú því?
„Ég hef auðvitað heyrt það oft að þau tali um að þau nái engu fram í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ég get bara talað sem sjálfstæðismaður og það sem ég sé er að við höfum ákveðna stefnu og göngum til kosninga og segjumst ætla að fylgja henni. En svo upplifi ég, og margir almennir sjálfstæðismenn, að það sé bara ekki verið að framfylgja henni,“ segir Júlíus.
Hann segir það einkum lýsa sér í aukningu ríkisútgjalda, ríkisvæðingu tryggingafélags og tveimur ónýtum hvalveiðivertíðum sem og ástandinu í menntamálunum.
Spurður hvort hann telji ástæðu til að endurskoða forystu flokksins í ljósi slaks fylgis kveðst Júlíus ekki endilega sjá ástæðu til þess.
„Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í einhverjar yfirlýsingar um forystubreytingar eða einstaklinga. Ég vil bara sjá breytingar í aðgerðum,“ segir Júlíus.
„Það er vissulega eitthvað að og við þurfum að breyta því hvernig við erum að tækla þetta. Ekki bara hinn almenni flokksmaður, heldur hinn almenni kjósandi, og Íslendingar tengja ekki við það sem við erum að segja eða gera í dag.“
Kveðst Júlíus vongóður um fundinn í dag og vona að þar verði góð tækifæri til umræðna um stöðuna og lausnir þar á.
„Vonandi getum við gengið út af þessum fundi með eitthvert plan.“