Smám saman að nútímavæða alla aðstöðu

Bjarni Benediktsson ræðir við Einar Þorsteinsson borgarstjóra og Ásmund Einar …
Bjarni Benediktsson ræðir við Einar Þorsteinsson borgarstjóra og Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum komin með áætlun, bæði fyrir KSÍ og FRÍ, og ég er ánægður með að við erum að ná utan um þetta risastóra verkefni,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ undirrituðu í dag sameiginlega viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal. Um er að ræða fyrsta skref að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal.

Fyrsta skref verkefnisins er að breyta undirlagi Laugardalsvallar og fá svokallað hybrid-gras á völlinn sem verður til þess að hann verði nothæfur stærri hluta árs.

„Fyrst er ráðist í að skipta um yfirborð á Laugardalsvelli og þá verður raunhæft að spila landsleiki lengra inn í haustið og eftir atvikum í Evrópukeppni og eins fyrr á vorin. Það er skynsamleg nálgun hjá KSÍ að leggja fyrst og fremst áherslu á þetta.

Síðan förum við smám saman að laga og nútímavæða alla aðra aðstöðu á svæðinu. Þetta verður hagkvæmari lausn en við vorum að hugsa um og skoða fyrir nokkrum árum síðan. Þá vorum við með ýmsar útfærslur af vellinum sem hefðu kostað meira,“ sagði Bjarni og hélt áfram:

„Ég er ánægður að sjá málið þroskast og vera komið í þennan farveg. Við gerum okkur grein fyrir því að frjálsíþróttasambandið er ekki einhver aukastærð í þessu heldur stórmál. Við viljum búa okkar fólki, sem hefur t.d. verið á Ólympíuleikunum í París í sumar, framtíðaraðstöðu.

Við erum ekki eingöngu að horfa á KSÍ heldur hefur frjálsíþróttasambandið verið með okkur í þessu verkefni. Að vera með hagkvæmari lausnir hjá KSÍ opnar möguleika til að gera meira og fyrr fyrir frjálsíþróttasambandið. Það rímar mjög vel við þær hugmyndir sem við höfum verið með þegar kemur að afreksstefnu í íþróttum,“ sagði Bjarni.

Hann er bjartsýnn á að Laugardalsvöllur verði stækkaður og stúkur verði byggðar allar hringinn. „Ég held það sé vel raunhæft og muni gerast í skrefum. Yfirborðið á vellinum er fyrst og svo kemur aðstaðan öll í framhaldinu,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert