Friðjón hjólar í Bolla í 17

Friðjón segir það ekki vera efst á lista að „sinna …
Friðjón segir það ekki vera efst á lista að „sinna hugðarefnum hálf-áttræðs kylfings á Suður-Spáni“. Samsett mynd

Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hjólaði í Ásgeir Bolla Kristinsson, oft kennd­an við versl­un­ina 17, fyrir ummæli hans í viðtali fyrr í dag.

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að Ásgeir hefði sent erindi á miðstjórn Sjálfstæðisflokksins þar sem hann krafðist þess að fá svar við því hvort að sjálfstæðismenn mættu bjóða fram viðbótarlista fyrir Sjálfstæðisflokkinn undir merkjum DD-lista.

Þeir sem yrðu kjörnir fyrir DD-listann myndu svo ganga í þingflokk Sjálfstæðisflokksins að kosningum loknum.

Ekki að leita að „nýútskrifuðum stúlkum“

Í samtali við Vísi er haft eftir Ásgeiri að aðeins þeir sem hefðu áorkað einhverju fengju sæti á listanum og myndu gamlir framámenn flokksins sjá um uppstillingu.

„Við erum ekkert að leita að einhverjum, hvað á ég að kalla það. Einhverjum nýútskrifuðum stúlkum sem ætla bara að blása á sér hárið og naglalakka sig. Þó ég hafi fulla virðingu fyrir ungu fólki þá þurfum við fólk með reynslu og eitthvað fólk sem hefur áunnið sér eitthvað í lífinu,“ sagði Bolli í samtali við Vísi.

Friðjón birti fyrir skömmu færslu á facebook þar sem hann segir ummælin vera birtingarmynd ákveðins vanda „sem við í Sjálfstæðisflokknum þurfum að eiga við“.

Að sinna Bolla ekki efst á lista flokksins

Hann segir vera aðeins of mikið af „eldri mönnum“ sem átti sig ekki á því að það sé til konur á fertugsaldri með góða menntun og reynslu úr stjórnmálum sem geti nokkurn skapaðan hlut.

„Þeir sakna mest þess tíma þegar þeir voru ungir menn og fannst sjálfsagt að hæfileikalausir vinum þeirra væri lyft langt umfram efni og gáfur,“ skrifar Friðjón.

Hann bætir því við að Bolli hafi í seinni tíð helst stundað áróður gegn EES samstarfinu „af golfvelli á suður-Spáni“. Flokkurinn hafi þó að mörgu að huga í stöðunni sem hann er í.

„En að sinna hugðarefnum hálf-áttræðs kylfings á Suður-Spáni er ekki efst á þeim lista,“ skrifar Friðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert