20% landsmanna eru innflytjendur

Innflytjendur eru nú orðnir 20% af landsmönnum.
Innflytjendur eru nú orðnir 20% af landsmönnum. mbl.is/Eyþór

Innflytjendum hefur fjölgað hlutfallslega mest á Íslandi síðastliðinn áratug af öllum ríkjum OECD og kemur verst út þegar tungumálakunnátta innflytjenda er skoðuð. Innflytjendur eru nú orðnir 20% af landsmönnum. Langflestir eða 80% koma frá Evrópska efnahagssvæðinu, EES. 10% koma frá löndum utan EES og 10% eru hælisleitendur. Þetta kemur fram í skýrslu OECD um innflytjendamál sem kynnt var á Kjarvalsstöðum í gær.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið að ástæðan fyrir fjölgun innflytjenda sé fyrst og fremst sú að fólk komi hingað til að vinna og sæki mest í atvinnugreinar eins og byggingariðnaðinn og ferðaþjónustuna sem reiði sig mikið á erlent vinnuafl.

Í skýrslunni kemur fram að með aukinni tungumálaþekkingu nái innflytjendur fyrr að aðlagast þjóðfélaginu og hér á landi er tungumálakunnátta innflytjenda minnst í samanburði við hin OECD-löndin.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eyþór

„Við erum eftirbátar samanburðarríkjanna þegar kemur að fjármagni til íslenskukennslu. Við höfum aukið fjármagn til íslenskukennslu á undanförnum árum, en munurinn er umtalsverður milli okkar og hinna Norðurlandaþjóðanna. Þarna verðum við að gera mun betur vegna þess að íslenskan er lykill að fótfestu í samfélaginu og innflytjendur eru orðnir 20% af landsmönnum,“ segir Guðmundur Ingi.

Hvernig er staðið að íslenskukennslunni?

„Það er boðið upp á íslenskukennslu fyrir þá sem koma í gegn um verndarkerfið hjá fræðslumiðstöðvum út um allt land. Við ætlum að taka betur utan um innflytjendamálin í nýrri stefnumótun og nýrri heildarlöggjöf þar sem verður kveðið nánar á um hvernig staðið verði að íslenskunámi innflytjenda.“

Hlutfall atvinnulausra innflytjenda hefur aukist á undanförnum árum og segir ráðherrann að það sé eitthvað sem þurfi að skoða sérstaklega því fram að þessu hafi meginfjöldinn komið til að vinna, en á því megi sjá mun núna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert