Drífa Snædal, talsmaður Stígamóta og fyrrverandi forseti ASÍ, segir auglýsingaherferð flugfélagsins Play niðurlægja konur og að auglýsingin leiði til þess að ógna öryggi kvenna:
„Konur smættaðar niður í líkama, án höfuðs, sýnt á kynferðislegan hátt. Hlutgerving er afmennskun, afmennskun er niðurlæging og niðurlæging er upptaktur að ofbeldi. Afmennskun kvenna ógnar öryggi þeirra,“ segir Drífa í færslu á Facebook-síðu sinni.
Þá bætir hún við að hliðstæð auglýsing með karllíkama bæti ekki stöðuna.
Hún segir félagið brjóta á reglum vinnumarkaðarins og að það greiði konum undir lágmarkslaunum.
„Er Play að reyna að slá met í jafnréttisbakslagi?“ spyr hún að lokum.
Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og markaðssviðs flugfélagsins, sagði í samtali við mbl.is að flugfélagið hafi alveg vitað hvað það væri að gera með auglýsingaherferðinni.
Tekið skal fram að Drífa og ASÍ hafa ítrekað gagnrýnt Play, og talsmenn flugfélagsins ítrekað gagnrýnt ASÍ og Drífu á móti.
Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Play, sagði til að mynda á sínum tíma fjarstæðukenndar þær fullyrðingar Drífu um að flugfélagið myndi borga laun sem væru undir lágmarkslaunum.
Þá sagði Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, að hátterni Play í tengslum við kjarasamningagerð hefði verið „svartur blettur á sögu kjarasamningagerðar á Íslandi.“