Björgunarsveitir í Borgarfirði voru kallaðar út rétt fyrir klukkan eitt í dag vegna smala sem hafði hrasað við smalamennsku í Skorradal, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Björgunarsveitarfólk komst að smalanum, sem var slasaður á fæti, á fjórhjólum. Að sögn Landsbjargar er svæðið afar erfitt yfirferðar.
„Smalanum var komið fyrir á hjóli björgunarfólks, sem flutti hann niður að sjúkrabíl til aðhlynningar,“ segir í tilkynningu.
Þar segir að mikið hafi verið af fólki á fjalli að eltast við fé víðast hvar í Borgarbyggð í dag.