Hagkaup selur eingöngu snyrtivörur frá viðurkenndum söluaðilum á Íslandi. Framkvæmdastjóri Hagkaups segir verslunina þannig tryggja viðskiptavinum sínum að snyrtivörur sem þeir kaupi séu glænýjar og öruggar.
„Þetta eru oft á tíðum og langoftast mjög viðkvæmar vörur sem þarf að geyma við ákveðin skilyrði og þær duga bara ákveðið lengi. [...] Þess vegna þarf að vera ákveðin röð og regla á því að þetta komi inn í ákveðnu magni og seljist og klárist,“ segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups í samtali við mbl.is.
Sigurður segir starfsmenn Hagkaups öðru hverju reka augun í það að önnur fyrirtæki séu að selja snyrtivörur sem þeir viti að komi ekki frá viðurkenndum dreifingaraðila.
„Það eru kannski helst þeir sem ekki eru með aðgang að þessum merkjum. Því að það er ekki hver sem er sem fær að selja ákveðin merki. Það eru kröfur frá merkjunum sjálfum um það hverjir megi selja. Það þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. [...] Það getur kallað á að aðrir sem langar að selja einhverjar vörur reyni að útvega sér þær með krókaleiðum. Þá geta menn útvegað sér alls konar vörur sem þú oft á tíðum veist ekki alveg hvar eru búnar að vera og hversu lengi. Ég held að það séu margir neytendur á Íslandi sem hafa upplifað það að opna kassa með ónýtum vörum,“ segir Sigurður.
Þrátt fyrir að kaupa ekki snyrtivörur af gráum markaði kaupir Hagkaup matvöru af gráum markaði. Að sögn Sigurðar kaupa margar íslenskar matvöruverslanir matvöru af gráum markaði, enda sé oft hægt að gera góð kaup.
„Þetta er þekkt í matvörunni, að einhver vöruhús eiga afgang af einhverjum vörum og vilja tæma hjá sér síðustu hillurnar og henda þessu þá inn í þessi gráu vöruhús, þar sem aðilar geta komið og keypt restirnar. Í matvörunni eru vörurnar merktar með dagsetningu þannig að þú getur oft á tíðum hitt á fínar vörur í fínu standi sem uppfylla allar dagsetningar.“
Sigurður bendir á að ólíkt matvöru séu snyrtivörur ekki alltaf merktar með dagsetningu. „Þannig að þú veist oft ekki þegar þú ert með einhvern gjafakassa hvort hann sé eins árs eða fimm ára. Þar geta menn verið að kaupa í grunninn gallaðar vörur.“