Brynjar Níelsson fyrrverandi alþingismaður gefur lítið fyrir gagnrýni Drífu Snædal og annarra sem hafa lagt orð í belg vegna umdeildrar auglýsingaherferðar Play sem sýnir líkama konu og karls við kynþokkafullar aðstæður.
Að mati Brynjars ber fyrirtækið enga ábyrgð á því að setja hlutina fram á einhvern ákveðinn hátt. „Hvað er þetta? Kynþokkinn og kynhvötin er nú einu sinni „drive-ið“ í mannskepnunni,“ segir Brynjar.
Í samtali við mbl.is segir hann að sér finnist sérstakt þegar fólk talar sérstaklega fyrir kvenfrelsi og jafnrétti en geti ekki þolað að einhver nýti sitt frelsi á aðra leið en þessu fólki er þóknanlegt.“
Að mati Brynjars er það frekar aumleg frelsishugsjón.
Bendir Brynjar á að fólkið sem kemur fram í auglýsingaherferð Play hafi nákvæmlega sama frelsi og aðrir.
„Okkur getur fundist einhver auglýsing hallærisleg eða við getum haft ýmsar skoðanir. Ég hef ýmsar skoðanir á auglýsingum og því sem fólk er að gera og finnst það jafnvel hallærislegt eða ömurlegt en ég er bara svo upptekinn af frelsinu að menn mega bara gera það sem þeim sýnist og ég læt það ekki trufla mig.
Ég er frelsismaður og líka fyrir þá sem eru að gera eitthvað annað en mér þóknast og er einfaldur maður að þessu leytinu.“
Brynjari blöskrar það ofstæki sem spinnst upp og brýst út í atlögum að fyrirtækjum og fólki af því að þar sé verið er að gera eitthvað sem öðru fólki þóknast ekki. „Ég hef satt að segja ekki mikið álit á fólki sem gagnrýnir með þessum hætti,“ segir hann og heldur áfram.
„Maður hefur á tilfinningunni að þetta fólk hafi engan áhuga á kvenfrelsi í sjálfu sér heldur er það bara í sinni pólitík. Þetta er bara pólitík. Það má enginn nýta neitt frelsi nema það henti þessu fólki sjálfu. Það finnst mér frekar aumleg frelsishugsjón.“
Segir Brynjar þetta birtast í mörgu. „Þetta er bara einn anginn en þetta er alltaf sama fólkið. Þetta er alltaf sama Drífan og alltaf sama Seman og allt þetta fólk. Fólk sem er alltaf í einhverri eilífri réttlætisbaráttu en þetta snýst bara um þeirra eigin pólitík – annað þola þau ekki.“