Ríkisstjórnin er föst í vítahring þegar kemur að ríkisútgjöldunum sem leiðir af sér áframhaldandi verðbólgu. Með Miðflokknum í næstu ríkisstjórn má treysta á að heilbrigð skynsemi verði innleidd í íslensk stjórnmál.
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í ræðu sinni á Alþingi í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra.
Sigmundur sagði ekki vitað nákvæmlega hvenær næst yrði kosið en þó væri ljóst að þessi ríkisstjórn myndi ekki starfa áfram.
Hann sagði þá ríkisstjórnina hafa fjölgað innflytjendum verulega án þess að huga að því að innviðir þurfi að fylgja.
„Þá er okkur sagt: „Þetta er nú að miklu leyti vinnuafl sem kemur hingað til að byggja íbúðir“. Til dæmis fyrir þá innflytjendastrauminn og hælisleitendastrauminn,“ sagði hann og bætti við:
„En um leið fá mörg hundruð áhugasamir iðnnemar árlega höfnun. Loksins þegar iðnnemarnir voru tilbúnir til að mæta í það iðnnám sem stjórnmálamenn hefðu kallað eftir árum saman – þá fá þeir höfnun. Auðveldara bara að flytja inn fólkið og viðhalda hringrásinni með þeim hætti.“
„Fulltrúar stjórnarinnar þreytast ekki á að útskýra að það komi ekki til greina að þetta stjórnarsamstarf haldi áfram. Hafa gert sér grein fyrir því að þetta sé feigðarflan, en ætla að halda áfram í bili og sameinast um eitt – að verja stjórnina vantrausti því að biðin þarf að halda áfram. Vonin um að það verði eitthvað kraftaverk eða eitthvað óvænt gerist sem að bjarga þessari ríkisstjórn undan arfleifð sinni síðastliðin sjö ár,“ sagði hann.
Hann sagði að margt hefði breyst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þegar hún lyki störfum sínum mætti gera ráð fyrir því að ríkisútgjöldin verði búin að tvöfaldast í krónum talið og því hafi að sjálfsögðu fylgt verðbólga.
„Auðvitað hefur fylgt því verðbólga – eins og allir hefðu getað gefið sér miðað við þessa stjórn efnahagsmála – þannig að fyrir vikið er raunaukningin, kannski þegar á hólminn er komið 40-50 prósent,“ sagði Sigmundur.
Hann sagði það í raun óskiljanlegt þar sem skattgreiðendur hefðu ekki fengið neitt fyrir vikið.
„Hvað stendur eftir? Er heilbrigðiskerfið betra? Þau minna okkur reyndar reglulega á að það sé búið að eyða heilmiklum peningum í nýjan Landspítala. Staflana hérna við gamla miðbæinn sem ættu betur heima við höfnina í Rotterdam. En vonast til þess að á endanum takist að ljúka uppbyggingu þessa spítala þó hann sé reyndar komin margfalt fram úr áætlun, eins og allir gátu gefið sér,“ sagði hann.
Hann sagði að í menntamálum væri Ísland í efsta sæti þegar kæmi að kostnaðarmesta grunnskólakerfi í heimi en á móti væri þjóðin í næstlægsta sæti þegar kæmi að árangri.
„Þá mynduðu aukaútgjöld þessarar stjórnar í Covid nýtt gólf í útgjöldum ríkissjóðs og ofan á það gólf og hefur verið byggt jafnt og þétt og útgjöldin aukin.
Afleiðingarnar eru verðbólga og hærri vextir sem heimilin og fyrirtækin eru að sligast undan þessa dagana. En hvorki þessi ríkisstjórn, né að miklu leiti bankarnir, hafa þann hvata sem þarf til þess að tekið sé á þessari þróun,“ sagði hann.
Hann sagði að ríkið teldi sig græða á verðbólgunni.
„Nú er ég ekki að saka þessa ríkisstjórn um eitthvað sem hún hefur ekki sagt sjálf. Því að hún hefur fundið upp glænýjar kenningar í efnahagsmálum og hagfræði til að réttlæta þessi gegndarlausu útgjöld – sem lítið fæst fyrir – og útskýrt það að þetta sé allt í lagi af því að tekjur ríkissjóðs hafi vaxið svo mikið. Meira heldur en fjármálaráðuneytið jafnvel spáði fyrir ár eftir ár,“ sagði hann og spurði svo af hverju tekjurnar hefðu aukist svona mikið umfram spár.
„Vegna þess að verðbólgan var alltaf meira en menn gerðu ráð fyrir, vörurnar urðu dýrari og ríkið fékk meiri tekjur af virðisaukaskatti og annarri skattlagningu.“
Hann sagði að þá hefðu menn nýtt aukatekjurnar til þess að eyða enn meiru.
„Afleiðingin er sú að verðbólgan eykst aftur, tekjurnar aukast árið eftir og úr verður þessi skelfilegi vítahringur. Hálfgerð vítisvél sem hefur haldið þessari stöðugu útgjaldaaukningu gangandi,“ sagði hann.
Hann sagði að ríkisstjórnin myndi ekki starfa mikið lengur en að hættan væri sú að einhverjir flokkanna – eða allir –myndu leita sér að nýjum samverkamönnum til að halda áfram með óbreytta stefnu.
„Það mun ekki gerast með Miðflokknum í ríkisstjórn. Þá geta menn treyst á breytt stjórnarfar hér og innleiðingu heilbrigðrar skynsemi á nýjan leik í íslenskum stjórnmálum,“ sagði hann.