„Þessi umræða þarf að komast upp úr þessum leiðindaskotgröfum sem við höfum verið í. Það þarf að geta talað um þetta á fullorðinn máta.“
Þetta segir Daði Rafnsson sem er einn af stofnendum samtakanna Hljóðmörk - Íbúasamtök gegn óþarfa flugumferð á Reykjavíkurflugvelli. Að baki þeim standa íbúar úr Hlíðum, Vesturbæ Reykjavíkur, Skerjafirði og Kársnesi.
Á facebooksíðu samtakanna segir að með auknum straumi ferðamanna hingað til lands og eldgosum á Reykjanesskaga hafi hávaði frá þyrlum og einkaflugvélum stóraukist í þessum hverfum. Samtökin telja hagsmuni íbúa hafa orðið undir í þróun umferðar um Reykjavíkurflugvöll undanfarin ár. Markmið félagsins eru að óþarfa flug hverfi frá Reykjavíkurflugvelli og að félagið fái aðild að opinberum nefndum og samráðshópum um stefnumótun flugvallarins.
Daði segir aðspurður að þeir sem stofnuðu samtökin séu orðnir langþreyttir á ástandinu og vilja að böndum verði komið á þessa tilteknu flugumferð og henni fundinn annar staður.
„Það ætti að vera lítil fyrirstaða að finna þyrluflugi með túrista annað heimili og að einkaþotur með erlendum auðkýfingum séu annars staðar en ofan í hlíðarrótum,“ greinir hann frá. „Þetta er breytingin sem hefur orðið undanfarin ár. Þetta hefur aukist það mikið að það er sjaldan friður. Þetta er allt annað en einstaka áætlanaflugvél og hvað þá sjúkraflug sem enginn er á móti, heldur þessi stöðugi og stanslausi niður.“
Á fyrrgreindri facebooksíðu kemur fram að fólk sem telji sig ekki verða fyrir truflun af völdum óþarfa flugumferðar ætti varla að finna fyrir því ef hún hverfur. Að losna við óþarfa flugumferð skipti hins vegar miklu máli fyrir fólk sem þurfi að sofa, vakna, lifa og sofna við þyrlusmelli og þotudrunur.
Samtökin hafa þegar rætt við bæjarstjórn Kópavogs vegna málsins, auk þess sem fundur með innviðaráðherra er fyrirhugaður í næstu viku. Samtal við Reykjavíkurborg er einnig í pípunum og sömuleiðis hefur Isavia boðað þau á fund. Daði vonast til að gott samtal náist um stöðu mála og hægt verði að ná einhverri lendingu. Almennt segir hann að viðbrögðin við stofnun samtakanna hafi verið mun jákvæðari en þau bjuggust við.
Spurður hvert þyrlur og einkaflugvélar gætu farið í stað þess að vera á Reykjavíkurflugvelli segir hann það eiga að vera í höndum sérfræðinga að finna lausn á því og að ýmsir hafi komið með uppástungur. Hvað varðar reglugerðir gegn hávaðamengun þá hafi það komið fram í samtali við bæjarstjórn Kópavog að samkvæmt tölum þeirra sé hávaðinn „klárlega yfir mörkum“. Hann segir aftur á móti óljóst hver ber ábyrgð og hvert óánægðir íbúar geti leitað. Hagmunir íbúa verði að vera hafðir að leiðarljósi þegar ákvarðanir séu teknar sem snerti þá eins mikið og raun ber vitni.
„Eins og með túristaþyrluflug. Við áttum okkur ekki á hvernig það varð svona mikið. Hver tekur ákvörðun um það og hver veitir leyfið?“ spyr Daði og nefnir að íbúar í London, New York og fleiri borgum hafi hópað sig saman af svipuðum ástæðum. Þar hafi m.a. verið talað um að desibel-mælingar séu ekki nóg þegar kemur að hávaða frá þyrlum. Hann sé meiri á jörðu niðri en slíkar mælingar segi til um.
„Ég segi af eigin reynslu að þyrlur eru algjör skaðvaldur,“ bætir Daði við. Hann býr á Kársnesinu í Kópavogi en bjó áður í Hlíðunum og segir hávaðann hafa aukist mjög á síðustu árum. „Þetta er spurning um hvernig við viljum hafa lífið í höfuðborginni. Mér finnst Kársnes vera besti staður í Evrópu til að búa á fyrir utan þetta. Þetta er spurning um lífsgæði.“