Þórdís boðar eitt frumvarp: Bókun 35

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mun endurflytja frumvarp sitt um bókun …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mun endurflytja frumvarp sitt um bókun 35. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra boðar aðeins eitt frumvarp á þingvetrinum og það er end­ur­flutt frum­varp um hina um­deildu bók­un 35.

Mun hún leggja fram frumvarpið í þessum mánuði og er þetta fyrsta mál á dagskrá hjá henni á þingvetrinum. Að öðru leyti verður Þórdís með 14 tillögur til þingsályktunar um hin ýmsu mál og tvær skýrslur.

„Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að bæta innleiðingu bókunar 35 við EES samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila,“ segir í þingmálaskránni.

Um er að ræða umdeilt og flókið mál sem hefur vakið upp blendnar tilfinningar meðal stjórnarliða. 

Flókin bókun

Eins og áður hefur verið rakið snýst málið um tiltekna bókun við EES-samninginn frá 1992, en þrátt fyrir að megintexti hans og ýmis fylgiskjöl hafi hlotið löghelgun Alþingis, þá átti það ekki við um allar bókanir samningsins og gerðir, þar á meðal bókun 35.

Hún kveður annars vegar á um að í samningnum felist ekkert framsal löggjafarvalds, en svo fylgir málsgrein sem tiltekur skyldur samningsaðila um að lögfesta forgang EES-reglna.

Sú þverstæða hefur verið mönnum ljós frá upphafi, en litið svo á að síðari málsgreinin væri málamiðlun og hefði litla þýðingu.

ESA hreyfði fyrst við málinu

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hreyfði málinu fyrst við íslensk stjórnvöld árið 2012 vegna dómaframkvæmdar hér á landi, en eftir margra ára bréfaskriftir sendi ESA áminningarbréf árið 2017.

Síðan gekk á með frekari bréfaskriftum, þar sem Ísland varði þá afstöðu að engu þyrfti eða ætti að breyta, allt þar til utanríkisráðherra lagði fram umrætt frumvarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert