Vilja umræðu um ADHD byggða á gögnum

„Okkur fannst mikilvægt að það yrði gerð vísindagrein með góðri …
„Okkur fannst mikilvægt að það yrði gerð vísindagrein með góðri úttekt á stöðu mála,“ segir Oddur. Samsett mynd

Oddur Ingimarsson, geðlæknir og einn af höfundum rannsóknar um algengi ADHD-greininga hjá Íslendingum út frá ADHD-lyfjanotkun, segir niðurstöðurnar hafa komið sér á óvart varðandi það hve lyfjanotkunin á Íslandi var mikil miðað við algengi ADHD í stórum erlendum rannsóknum.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem voru nýlega birtar í Læknablaðinu, kemur fram að algengi ADHD-greininga með hliðsjón af ávísunum ADHD-lyfja til Íslendinga sé um tvö- til þrefalt hærra en í stærri vönduðum rannsóknum erlendis. Höfundarnir hvetja heilbrigðisyfirvöld til að gera sem fyrst úttekt á því hvernig ADHD-greiningum er háttað hér á landi því núverandi fyrirkomulag leiði til ofgreininga og ofmeðhöndlunar.

Ljósmynd/Colourbox

Frá 2010 hefur aukningin í ADHD-lyfjanotkun hjá drengjum 7-17 ára verið 93% og hjá stúlkum 224%. Hjá körlum 18-44 ára hefur aukningin verið 414% og 543% hjá konum á sama aldursskeiði, að því er segir í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Meira um geðrof og maníur

„Það hefur komið fram áður að við séum að nota mikið af lyfjum en munurinn var meiri en við áttum von á. Okkur fannst mikilvægt að það yrði gerð vísindagrein með góðri úttekt á stöðu mála svo að hægt væri að ræða um ADHD byggt á gögnum, þ.e. rannsóknum en ekki tilfinningu eða skoðun,“ segir Oddur um rannsóknina.

Spurður hvers vegna ráðist hafi verið í hana til að byrja með nefnir hann aðra rannsókn sem sé í vinnslu um geðrof og maníur. Hann og fleiri meðferðaraðilar á geðdeild Landspítalans hafi tekið eftir því að meira væri um slík veikindi á geðdeildinni í tengslum við ADHD-lyfjameðferð en áður. Einnig hafi fleiri tilfelli geðrofs komið upp í tengslum við notkun ADHD-lyfja þar sem hann starfar við endurhæfingu ungs fólks á Laugarási.

„Það var rökrétt framhald að skoða algengið betur og hvernig staðan er í rauninni með útskriftir á ADHD-lyfjum.“

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Geðheilsuteymið þarf verulegan stuðning

Til að bregðast við stöðunni varðandi aukna lyfjanotkun telur Oddur eðlilegt að geðheilsuteymi ADHD verði styrkt verulega. Það taki yfir greiningarnar í stað þess að einkaaðilar stundi þær einnig. Fram kemur í rannsókninni að um síðustu áramót hafi um 2.100 Íslendingar beðið eftir greiningu hjá teyminu.

„Greiningar eru oft flóknar. Það þarf reynda meðferðaraðila og greinendur til að framkvæma þær,“ segir hann og bendir á að margar aðrar greiningar geti truflað matið, svo sem kvíði, svefnleysi, þunglyndi, álag og vímuefnavandi.

„Líklega verulega ofgreint“

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að þær stóru rannsóknir sem hafi verið gerðar á algengi ADHD hjá fullorðnum hafi fyrst og fremst metið algengið hjá ungu fullorðnu fólki og sýnt algengi á bilinu 2,5%-6,8%.

Oddur Ingimarsson.
Oddur Ingimarsson. Ljósmynd/Aðsend

„Algengi ADHD metið út frá því að hafa einhvern tíma notað ADHD-lyf er því að minnsta kosti tvö- til þrefalt hærra hér á landi en búast mætti við út frá framangreindum rannsóknum. Þá reyndist notkun ADHD-lyfja hjá 10-44 ára vera þrisvar sinnum meiri hjá Íslendingum en hjá Svíum í sama aldurshópi og rúmlega 13 sinnum meiri en hjá Norðmönnum. Þetta háa algengi hér á landi, borið saman við vandaðar alþjóðlegar rannsóknir og ADHD-lyfjanotkun á hinum Norðurlöndunum, bendir ótvírætt til þess að ADHD sé ofgreint, líklega verulega ofgreint, hér á landi,“ segir í niðurstöðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka