Guðrún: Ákvörðun um brottvísun Yazans stendur

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Ákvörðun um brottflutning Yazans Tamimi stendur. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir á Alþingi rétt í þessu.

Áður en flugvél með Yazan og fjölskyldu hans fór af landi brott til Spánar í morgun barst Guðrúnu beiðni frá félags og vinnumarkaðsráðherra um að framkvæmdinni yrði frestað vegna þess að hann óskaði eftir að fá að ræða málið í ríkisstjórn.

„Ég ákvað að verða við þeirri beiðni og lagði þess vegna fyrir ríkislögreglustjóra að fresta för um sinn. Það breytir því þó ekki að ákvörðun um brottflutning stendur en framkvæmdinni á þessum brottflutningi hefur verið frestað,“ sagði Guðrún í óundirbúnum fyrirspurnum.

Spurði hvort VG hefði hótað að sprengja ríkisstjórnina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra m.a. hvort að hún teldi sig hafa lagaheimild fyrir því að fresta brottvísun Yazans Tamimi. Hann fékk ekki svör við þeirri spurningu.

„Treystir hæstvirtur ráðherra ekki heilbrigðiskerfinu á Spáni? Treystir hæstvirtur ráðherra ekki stjórnkerfinu á Íslandi eða var þetta gert eingöngu af kröfu ráðherra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og hvað hefði gerst ef ekki hefði orðið við þeirri kröfu?

Fóru ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fram á að hæstvirtur ráðherra skipti um skoðun í þessu máli eða ella myndu þeir slíta stjórnarsamstarfinu?“ spurði Sigmundur Davíð.

Hann fékk ekki svör við þessum spurningum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert