Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið í viðræðum við tiltekinn stjórnmálaflokk. Skyldu viðræðurnar ekki leiða til samkomulags mun Arnar Þór stofna nýjan stjórnmálaflokk. Hann hefur ekki tekið ákvörðun en mun tilkynna ákvörðun á mánudagskvöld eða þriðjudag.
„Ég er ekki búinn að taka ákvörðun um hvora leiðina ég fer, hvort það verður stofnaður nýr flokkur eða ég geng til liðs við flokk sem er þegar til staðar,“ segir Arnar Þór í samtali við mbl.is.
Er blaðamaður spurði Arnar Þór hvort hann væri í viðræðum við Miðflokkinn neitaði hann því ekki.
Arnar Þór segist hafa verið í viðræðum við stjórnmálaflokkinn um málefnagrunn. Þá hefur sæti á lista í næstu Alþingiskosningum verið rætt, en að sögn Arnars Þórs er það ekki aðalatriði viðræðnanna. Aðspurður segist hann þó vilja fara á þing.
„Við þurfum endurnýjun á Alþingi. Við þurfum fólk sem að er ekki að fara í þetta sem einhverskonar atvinnupólitík. Við þurfum fólk sem hefur reynslu úr atvinnulífinu og vill leggja sig fram fyrir Ísland,“ segir Arnar Þór.