Vaxtahækkun og breytt framboð íbúðalána

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsbankinn breytir í dag vöxtum á inn- og útlánum og þá taka jafnframt í gildi breytingar á framboði verðtryggðra íbúðalána.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en þar segir að breytilegir vextir á verðtryggðum innlánsreikningum hækki um 0,25 prósentustig og vextir á gjaldeyrisreikningum muni taka breytingum með hliðsjón af vaxtastigi viðkomandi myntar.

Hvað varðar útlánsvexti þá lækka fastir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum til 36 og og 60 mánaða um 0,20 prósentustig og fastir vextir á óverðtryggðum útlánum vegna bíla- og tækjafjármögnunar lækka um 0,20 prósentustig.

Breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána hækka um 0,25 prósentustig. Fastir vextir á nýjum verðtryggðum íbúðalánum til 60 mánaða hækka um 0,50 prósentustig og kjörvextir á verðtryggðum útlánum hækka um 0,50 prósentustig.

Breytt framboð verðtryggðra íbúðalána

Samhliða þessum vaxtabreytingum taka gildi breytingar á framboði verðtryggðra íbúðalána og verða verðtryggð íbúðalán með jöfnum greiðslum nú eingöngu í boði fyrir fyrstu kaupendur.

Tekið er fram að engar breytingar verði á framboði verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum.

Hámarkslánstími nýrra verðtryggðra íbúðalána er áfram 30 ár og hámarkslánstími nýrra óverðtryggðra íbúðalána er áfram 40 ár. Hámarksveðhlutföll nýrra íbúðalána haldast óbreytt.

„Breytingar á vöxtum á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka þó gildi í samræmi við tilkynningar þar að lútandi sem sendar verða viðskiptavinum í netbanka,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka