Aukin þensla með afnámi stimpilgjalda

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Karítas

Ekki kemur til greina hjá ríkisstjórninni að afnema stimpilgjöld af fasteignakaupum einstaklinga, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármála- og efnahagsráðherra.

Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp þess efnis.

Stimpilgjald nemur nú 0,8% af kaupverði fasteigna með þeirri undantekningu að helmingsafsláttur er gefinn fyrstu kaupendum.

„Við höfum lækkað stimpilgjöld á fyrstu kaupendur, um 50%, og ég held að það skipti máli. Það eru einhverjar 600 milljónir sem við styðjum þar af leiðandi fyrstu kaupendur um,“ segir Sigurður Ingi aðspurður, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Styður ekki við viðkvæmustu hópana

„Við lifum akkúrat núna í erfiðu umhverfi með mjög háa raunvexti og vaxtabyrði fer vaxandi, sem er það sem gerist þegar stýrivextir eru svona háir í svona langan tíma, og tilgangurinn er að ná niður þenslu. Allar mótvægisaðgerðir sem við höfum farið í hafa miðað að því að taka utan um þá sem eru í viðkvæmastri stöðu. Ungt fólk, barnafólk, fólk sem er nýlega komið inn á húsnæðismarkaðinn og fólk sem hefur ekki átt þess kost að komast inn á húsnæðismarkaðinn,“ bætir ráðherrann við og nefnir að ríkisstjórnin hafi hækkað húsnæðis-, vaxta- og barnabætur.

Grafarvogur.
Grafarvogur. mbl.is/Sigurður Bogi

Auk þess nefnir hann gjaldfríar skólamáltíðir sem lið í mótvægisaðgerðum gegn vaxtahækkunum Seðlabankans. Mikilvægt sé í pólitík að horfa til viðkvæmustu hópanna þegar svona erfið staða er uppi.

„Að afnema stimpilgjöld almennt er ekki hluti af því að styðja við viðkvæmustu hópana. Það er að setja meiri peninga út í þenslu og auka peningamagn í umferð,“ segir Sigurður Ingi.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Seðlabankinn yrði ekki sáttur

Hann segir frumvarpið ekki hafa komið sér á óvart, enda tali ákveðnir stjórnmálaflokkar „fyrst og fremst“ fyrir skattalækkunum.

„En við þessar aðstæður þar sem þensla er í samfélaginu og við erum að reyna að ná niður þenslunni til þess að verja samfélagið og byggja undir framtíðina þá væri þetta, held ég, ekki aðgerð sem Seðlabankinn tæki fagnandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert