Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greinir frá því í færslu á facbook að á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins hafi Ísland sagt skilið við þann ríkjahóp sem staðið hefur saman að því að verja sjálfsákvörðunarrétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar á náttúruauðlindum sínum.
Jón segir að þetta hafi verið gert að fyrirmælum matvælaráðherra í andstöðu við forystumenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn og sé tímamót í utanríkisstefnu Íslands.
„Ég hafði óskað eftir því, við matvælaráðherra, að fá aðgang að fundinum í gegnum sendinefnd okkar. Ég greiði sjálfur allan kostnað við ferðina en hún af kærleik sínum hafnaði beiðni minni. En alþjóðleg samtök um sjálfbæra nýtingu sem verið hafa á þessum fundi í áratugi voru mjög sátt við að þingmaðurinn fengi aðgang á þeirra vegum,“ segir Jón í færslu sinni á facebook.
Í sendinefndinni eru Kolbeinn Árnason formaður frá Matvælaráðuneyti, Þorvaður Atli Þórsson frá Utanríkisráðuneyti, Guðjón Már Sigurðsson frá Hafrannsóknarstofnun, Kristján Loftsson og Sigursteinn Másson frá hagsmunaaðilum.
„Á þessum fundi gerðist það helst markvert að Ísland sagði skilið við þann ríkjahóp sem staðið hefur saman að því að verja sjálfsákvörðunarrétt þjóða til sjálfbærrar nýtingar á náttúruauðlindum sínum. Það var gert að fyrirmælum matvælaráðherra í andstöðu við forystumenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn. Þetta eru á þessum vettvangi tímamót í utanríkisstefnu Íslands,“ segir Jón ennfremur í færslunni.