Þórður Snær í Samfylkinguna

Þórður Snær Júlíusson.
Þórður Snær Júlíusson. mbl.is/Styrmir Kári

Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og Heimildarinnar, hefur skráð sig í Samfylkinguna en frá þessu greinir hann í færslu á Facebook.

„Ég hef ákveðið að taka þátt í skipulögðu stjórnmálastarfi í fyrsta sinn á ævi minni og skrá mig í Samfylkinguna. Ég tel, eftir töluverða yfirlegu og fjölmörg samtöl, að þar sé að finna þá pólitík sem mér hugnast best og fer saman við þær áherslur sem ég vil sjá að séu ráðandi í samfélaginu,“ segir Þórður í færslu sinni.

Hann segir að það sé kominn tími til að knýja fram réttlátar breytingar á Íslandi og Samfylkingin, sem hafi opnast og breikkað með innkomu og undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, sé að hans mati aflið til að leiða þá vegferð.

„Ég vil taka þátt í því stóra verkefni af fullum krafti og leggja mitt lóð á vogaskálarnar fyrir betra samfélagi,“ segir Þórður Snær.

Þórður var ritstjóri Kjarnans frá stofnun miðilsins árið 2013 þar til hann sameinaðist Stundinni og úr varð Heimildin í lok árs 2022. Hann var annar ritstjóra Heimildarinnar þangað til í sumar en nýlega hóf hann útgáfu fréttabréfsins Kjarnyrt.

Þórður Snær var einn af sjö einstaklingum sem fengu réttarstöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu sem lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að hætta rannsókn á.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert