Blanda af reyndu fólki og ungu fólki úr atvinnulífinu

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arn­ar Þór Jóns­son seg­ir aðdrag­and­ann að því að stofna Lýðræðis­flokk­inn hafa verið lang­an. Í flokkn­um verði blanda af reynslu­miklu fólki sem komið hef­ur áður að stjórn­mál­um og ungu fólki úr at­vinnu­líf­inu. Hann er gagn­rýn­inn á ís­lenska ríkið og seg­ir að fólk verði nú að fara að taka ábyrgð á framtíð lands­ins.

Arn­ar greindi frá því í morg­un að hann hafi stofnað nýj­an stjórn­mála­flokk, Lýðræðis­flokk­inn, í þeim til­gangi „að vinna gegn þróun í átt til of­stjórn­ar og óstjórn­ar sem er að kné­setja ís­lensk­an al­menn­ing og ís­lensk fyr­ir­tæki“.

Aðspurður seg­ir Arn­ar aðdrag­anda ákvörðun­ar­inn­ar hafa átt sér lang­an aðdrag­anda og að upp­haf­lega hafi hann ætlað að láta af­skipt­um sín­um af þjóðmál­um lokið eft­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar. Hins veg­ar hafi marg­ir komið að tali við hann og hvatt hann í þessa átt og lýst yfir áhyggj­um.

Vilja leggja sitt af mörk­um

„Við höf­um áhyggj­ur af því hvert mál­in eru að þró­ast. Hér hef­ur ríkt óstjórn ann­ars veg­ar og of­stjórn hins veg­ar,“ seg­ir Arn­ar og held­ur áfram.

„Við erum með óstjórn í mörg­um mála­flokk­um. Það leka pen­ing­ar út úr rík­iskass­an­um alls staðar. Síðan erum við með of­stjórn þar sem að ríkið, með eft­ir­liti sínu og reglu­setn­ingu, er ofan í háls­mál­inu á fólki alla daga og þetta er upp­skrift að alls kon­ar vand­ræðum og við vilj­um leggja okk­ar af mörk­um.“

Ég tek eft­ir því að þú seg­ir „við“ sem fær mig til að hugsa, hverj­ir eru komn­ir þarna inn með þér?

„Ég get sagt það að þetta er í bland, reynslu­mikið fólk sem hef­ur komið að stjórn­mál­um áður og síðan er þetta líka ungt fólk úr at­vinnu­lífi sem að raun­veru­lega vill láta gott af sér leiða og tel­ur sig ekki geta horft leng­ur upp á þró­un­ina eins og hún hef­ur verið.“

Ekki hægt að nefna nein nöfn eins og er?

„Nei, ég ætla að bíða með það þangað til að það er búið að boða til kosn­inga. En ég er með þétt­an hóp sem er að vinna með mér.“

Á móti rík­i­s­væðingu stjórn­mál­anna

Verður próf­kjör?

„Ég held að við verðum að gera þetta núna í fyrstu um­ferð. Vit­andi ekki hvað við höf­um ná­kvæm­lega lang­an tíma, þá verðum við að gera þetta með upp­still­ingu. Ég held að það sé ekk­ert annað í boði í þess­ari fyrstu um­ferð.“

Ertu bjart­sýnn fyr­ir næstu kosn­ing­ar að Lýðræðis­flokkn­um muni vegna vel?

„Ég er auðvitað að gera þetta í þeim til­gangi. Síðan hafa Íslend­ing­ar sem bet­ur fer frjálst val og ef þeir eru hæst­ánægðir með frammistöðu þeirra flokka sem hafa setið á þingi núna síðustu ár þá auðvitað kjósa þeir þá áfram,“ seg­ir Arn­ar og held­ur áfram. 

„En við erum að gera þetta til þess að reyna að koma inn ein­hvers kon­ar end­ur­nýj­un. Við erum á móti þess­ari rík­i­s­væðingu stjórn­mál­anna. Við vilj­um taka stjórn­mála­flokk­ana af rík­is­jöt­unni og við vilj­um að stjórn­mál­in fari aft­ur að þjóna fólk­inu í land­inu. Ekki er­lend­um yf­ir­völd­um, ekki rík­is­vald­inu, ekki emb­ætt­is­manna­kerf­inu held­ur fólk­inu í land­inu sem er að borga hérna skatta og reyna að halda þessu gang­andi.“

Vilja efla beint lýðræði

„Eitt af því sem við vilj­um gera er að efla beint lýðræði. Ég held að frammi fyr­ir því hvernig flokk­arn­ir hafa verið rík­i­s­vædd­ir og hvernig er búið að skera á grasrót flokk­anna að það séu þau bestu og kannski einu viðbrögðin sem hægt er að grípa til, það er að efla beint lýðræði, og það er hægt á ár­inu 2024 til dæm­is með ra­f­ræn­um kosn­ing­um um mik­il­væg mál.

Ég hef nefnt þetta í sam­bandi við stefnu­mark­andi mál eins og það að það sé verið að nota okk­ar skatt­pen­ing til þess að kaupa vopn til þess að nota í stríðsrekstri til að drepa fólk,“ seg­ir Arn­ar og nefn­ir að Íslend­ing­ar ættu að fá að tjá sig um slíka hluti.

Þá er fyrr­um for­setafram­bjóðand­inn harðorður er kem­ur að innviðum lands­ins og seg­ir hann að margt þurfi að bæta.

„Innviðir eru að brotna, ég held að það sé al­veg staðreynd. Við erum að horfa upp á þá stöðu að mennta­kerfið okk­ar er rán­dýrt í rekstri en það skil­ar ekki því sem það á að vera að skila. Það skil­ar börn­un­um okk­ar varla læs­um eft­ir tíu ár. Stór hluti drengja stend­ur mjög illa þarna. 

Lög­gæsl­an er á brauðfót­um frammi fyr­ir þeirri þróun sem hef­ur átt sér stað í land­inu. Það eru glæpa­hóp­ar bún­ir að skjóta hér rót­um og þarna þarf að bregðast við.

Það vita all­ir að heil­brigðis­kerfið sog­ar til sín enda­laust mikið af pen­ing­um, samt lengj­ast biðlist­arn­ir,“ seg­ir Arn­ar og bæt­ir við að ís­lenska ríkið sé farið að vasast í alls kon­ar verk­efn­um sem það eigi ekki að vasast í.

Ríkið van­ræki grund­vall­ar­verk­efni

Seg­ir hann ríkið eiga að sinna vega­kerfi, lög­gæslu og grunn­atriðum en skipta sér ekki af öðru. Staðan í dag sé hins veg­ar sú að ríkið sé komið með putt­ana sína í alls kon­ar gælu­verk­efni og er eyðandi pen­ing­um í hluti sem það ætti ekki að vera að skipta sér af.

„En á meðan van­rækja þeir grund­vall­ar­verk­efni sín og við þessu verður að bregðast. Það verður að stoppa þetta.“

Seg­ir Arn­ar að spenn­andi tím­ar séu fram und­an og tek­ur þó fram að nú sé verið upp á móti flokk­um á borð við Sjálf­stæðis­flokk­inn sem hafi tölu­vert meira fjár­magn á bak við sig frá rík­inu. Skila­boðin eru hins veg­ar ein­föld.

„Fólk verður að fara að taka ábyrgð á framtíð Íslands og ég skora á Íslend­inga að gera það.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert