Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi formaður Vinstri grænna, vill að næsta ríkisstjórn verði sterk félagshyggjustjórn, mynduð frá miðju til vinstri, og með VG innanborðs.
„Munu þau þrjú stjórnmálaöfl sem mynda ríkisstjórnina öll vinna aftur saman eftir næstu kosningar? Svarið er held ég flestum augljóst,“ sagði Guðmundur Ingi þegar hann ávarpaði landsfund VG sem hófst í dag.
Hann segir að stjórn hreyfingarinnar telji mikilvægt að landsfundarfulltrúar fái tækifæri til að ræða sérstaklega stöðu VG eftir sjö ár í ríkisstjórn.
„Fyrir fundinum liggur jafnframt ályktun frá níu félögum um að horfa skuli til slita á ríkisstjórn. Hugur minn liggur til þess að við ræðum þessi mál í hreinskilni og á opinskáan hátt, eins og við Vinstri græn kunnum best.“
Guðmundur Ingi segir að í félagshyggjustjórn sé hægt að taka enn stærri skref en þegar hafi verið tekin í velferðar- og menntamálum og umhverfis- og náttúruverndarmálum.
„Ísland þarf á slíkri stjórn að halda og kannski aldrei meira en nú,“ sagði formaðurinn.
Guðmundur Ingi segir að breiðu bökin eigi að leggja meira til samfélagsins. „Við eigum að hafa auðlegðarskatt. Þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt sem ver betur ævisparnað hjá venjulegu fólki en skattleggur auðmenn og gróðafyrirtæki.
Sanngjörn auðlindagjöld hvort sem horft er til sjávarútvegs, fiskeldis eða ferðaþjónustu.“
Þá segir hann að stjórnvöld eigi að nota fjármagnið til að byggja frekar upp í heilbrigðiskerfinu og draga enn frekar úr kostnaðarþátttöku. Einnig að bæta áfram kjör öryrkja og þeirra í hópi eldra fólks sem höllustum fæti standa. Þá eigi styðja við flóttafólk og íslenskunám innflytjenda, ekki síst í skólunum.
„Ný félagshyggjustjórn þarf að setja húsnæðismálin í öndvegi líkt og VG hefur lagt áherslu á og ríkisstjórnin hefur, þökk sé okkur, gert í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Ný stjórn þarf að halda áfram að byggja upp leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og koma á leigumarkaði sem virkar fyrir fólk en ekki fjármagn.
Við eigum að auka aðgerðir okkar í loftslagsmálum.
Og, kæru félagar, við eigum svo sannarlega að klára Hálendisþjóðgarð, nema hvað. Þar getur Ísland brotið blað og við eigum að hugsa stórt,“ sagði Guðmundur Ingi.
Hann gerði náttúru Íslands að umtalsefni í ræðu sinni og sagði að aðförinni að henni væri ekki lokið.
„Hún birtist núna meðal annars í stórkallalegum hugmyndum um vindorkuver í einkaeign út um allt land og í formi sjókvíaeldis í öðrum hverjum firði landsins. Á þessum málum verður að taka með bættri löggjöf, hertari reglum og skýrri sýn sem tekur mið af náttúruvernd.
Í mínum huga á Ísland á að vera þjóðgarðaparadís, þar sem verndun víðerna og villtrar náttúru er forgangsraðað. Með neti þjóðgarða og friðlýstra víðernasvæða. Með neti verndarsvæða vatnsfalla þannig að stórar jökulár geti áfram runnið óhindrað frá upptökum til ósa.“
Guðmundur Ingi vék í ræðu sinni einnig að orðræðu um „meintan gríðarlegan orkuskort“. Hann sagði að ýmis stjórnmálaöfl hafi keppst við að taka undir þá orðræðu, þar á meðal Samfylkingin og Viðreisn.
„Ég er ósáttur, ég er afar ósáttur, við þau þáttaskil sem hafa orðið í umræðunni um loftslags- og orkumál.
Sjálfskipaðir sérfræðingar sem eru nátengdir hagsmunaaðilum ríða um héruð, espa upp ótta við yfirvofandi meintum gríðarlegum orkuskorti sem þjóðinni verði aðeins forðað frá með stórtækum virkjanaáformum.
Ég er þakklátur forstjóra Landsvirkjunar að hafa blásið á þessar fullyrðingar um orkuskort nú á dögunum, líkt og umhverfisverndarsamtök hafa ítrekað gert. Með þessu er ég ekki að segja að ekkert þurfi að virkja á komandi árum. En við skulum fara varlega. Við skulum móta okkur stefnu. Stefnu um hvað við ætlum að nota orkuna í. Og sú stefna á hverfast um náttúruna og um fólk en ekki stórfyrirtæki.“
Guðmundur Ingi segir að loftslagsmál séu svo miklu meira en græn orka. Þau snúist líka um betri orkunýtingu, úrgangsmál, landbúnað, byggingaiðnað, landnýtingu, nýja tækni og rannsóknir.
„Hér er rými fyrir umhverfisverndarhreyfingu að stíga inn af afli og festu. Einmitt til að mæta einföldun og tala gegn grímulausum hagsmunaöflum sem smætta heilan málaflokk niður í tvö orð: Græna orku.“
Guðmundur Ingi segir enn fremur að baráttan gegn loftslagsvánni sé ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.
Auk þess að ræða um ríkisstjórnarsamstarfið, umhverfismál og orkumál, þá gerði Guðmundur Ingi kvenfrelsismál, hinsegin málefni, félagslegan jöfnuð og friðarmál að umtalsefni.
Sagði hann það skyldu VG sem friðarhreyfingar að tala fyrir málstað Palestínu og fyrir málstað friðar.
„Ég veit að það hallar ekki á neinn þegar ég nefni hlut Katrínar Jakobsdóttur í þessu samhengi, sem stýrði jafnréttismálunum í Stjórnarráðinu síðastliðin 6 ár,“ sagði Guðmundur og sagði það jafnframt heiður að taka við málaflokknum af Katrínu.
„Við skulum gefa Katrínu gott klapp,“ sagði hann og risu flokksmenn úr sætum sínum og klöppuðu fyrir fyrrverandi formanni flokksins, Katrínu Jakobsdóttur, sem var viðstödd í salnum.
Þá sagði Guðmundur Ingi að varðstaða um velferðarkerfin og grunninnviðina væru hluti af hjartslætti VG.
„Í gangi er sífelld ásókn gróðraafla í auðlindir, velferðarkerfið og menntakerfið og henni verðum við að veita kröftuga mótspyrnu. Annars molnar undan þjónustu og velferð á Íslandi.
Hlustið nú vel:
Vinstri græn hafna frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Vinstri græn hafna því að grunninnviðir eins og orkumannvirki, fjarskiptabúnaður og vegakerfi séu í eigu annarra en opinberra aðila. Og Vinstri græn hafna einkavæðingu í menntun.“
Guðmundur Ingi tók fram, að hann væri stoltur af öllu því ótalmarga sem VG hefði náð fram í þessari ríkisstjórn. Á sama tíma fyndi hann djúpstætt að það væri hart í ári hjá mörgu fólki núna. Verðbólgan væri þrálát, vextir að sliga fólk og hækkun húsaleigu og matarverðs kæmi við meginþorra landsmanna, en þó sérlega lágtekju- og millitekjufólk.
Hann segir að stærsta kjarabótin fyrir fólkið í landinu núna sé lækkun vaxta.
„Þess vegna er það algert lykilatriði að halda áfram að styðja við lækkun verðbólgu. Hið jákvæða er að hún er sannarlega á niðurleið, og vaxtaákvörðun Seðlabankans nú fyrr í vikunni markar upphafið að lækkun stýrivaxta.“
Hann tók einnig fram í ræðu sinni að það hefði verið heiður að gegna embætti formanns VG.
„Formennskan hefur þroskað mig sem stjórnmálamann, reynt á ýmsa vöðva líkama og hugar, og þroskað mig sem manneskju.“