Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýkjörinn varaformaður Vinstri grænna, kveðst þakklátur félögum sínum fyrir stuðninginn en hann hlaut 146 af 176 atkvæðum.
Jódís Skúladóttir þingmaður gaf einnig kost á sér til varaformennsku en hlaut einungis 27 atkvæði. Fjórir skiluðu auðu atkvæði.
Spurður hvort miklar breytingar séu framundan hjá hreyfingunni og hvort VG stefni í róttækari átt en síðustu sjö ár segir Guðmundur VG vissulega vera í þann mund að skerpa stefnur sínar á ný.
Lagt hefur verið til að Landsfundur Vinstri grænna álykti að tímabært sé að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Verður ályktunin tekin fyrir á morgun.
Spurður um afstöðu sína segir Guðmundur ýmis sjónarmið hafa komið fram á fundinum í dag og að koma verði í ljós á morgun hvort ályktunin verði samþykkt.
En er þín persónulega afstaða skýr? Vilt þú klára þetta stjórnarsamstarf?
„Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að það eru enn þá verk sem að við eigum eftir að klára,“ sagði Guðmundur og taldi upp ófá mál ríkisstjórnarinnar sem honum myndi hugnast að klára.
„En síðan þarf að koma í ljós hvort okkur auðnist að vinna áfram saman og hvernig það verður. Auðvitað munum við í forystu Vinstri grænna hlusta á það sem okkar grasrót hefur að segja.“
Guðmundur hélt í gær sína fyrstu og síðustu formannsræðu og gekk þar lengra í ummælum sínum um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs en aðrir ráðherrar hafa gert til þessa og sagði þjóðarmorð eiga sér stað á Gasasvæðinu.
Spurður út í ummælin og hvort þau muni einkenna stefnu VG er varðar málefnið, líka ef stjórnarsamstarf heldur áfram, segir Guðmundur það alveg ljóst að ástandið í Palestínu sé áhyggjuefni.
Er það stefna VG og verður það stefna ykkar í stjórnarsamstarfinu haldi það áfram?
„Sú stigmögnun átaka sem er að gerast þarna er eitthvað sem ég hef þungar áhyggjur af, einfaldlega út af stöðugleika og friði í þessum heimshluta og því framferði Ísraelsmanna á Gasa sem við höfum orðið vitni að þar sem tugir þúsunda fólks hafa verið drepin, konur og börn. Sagan mun auðvitað dæma hvaða orð við notum yfir þetta.“
Telur þú vera samhljóm um þetta innan hreyfingarinnar?
„Já.“