Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, kveðst ekki telja að ályktun sem var samþykkt fyrr í dag á landsfundi VG sé ávísun á erfiðara samstarf ríkisstjórnarflokka fram að vori.
Ályktunin lýtur að því að stjórnarsamstarfið sé að nálgast leiðarlok og að stefna eigi að þingkosningum í vor, frekar en haustið 2025.
„Ég held nú að það sé alltaf gott í samstarfi að fólk tali skýrt,“ segir Svandís.
„Eitt af því sem þarf að gera þar er að vega og meta tímalínuna sem við erum að vinna á og hvernig við nálgumst síðan kosningar og lok á samstarfinu.“
Aðspurð kveðst hún enn sem komið er ekki hafa rætt ályktunina við formenn hinna stjórnarflokkanna, Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson, né boðað til fundar með þeim.
Hún búist þó við að þau muni ræða saman á næstu dögum, enda eðlilegt að formenn tali saman þegar breytingar verði í forystu flokkanna.
„Ég er ekki að pressa á neina tímasetningu á honum [fundinum]. En auðvitað þurfum við að tala saman,“ segir Svandís innt eftir því hvenær hún hygðist ræða málið við formennina.
En hvers vegna að vori en ekki hausti eins og stendur til?
„Ég hef nú áður gert grein fyrir því að ég tel það einfaldlega vera þannig að við eigum að halda í þennan takt sem að hefur yfirleitt alltaf verið sem er að kjósa að vori og hafa svo sumarið til að sinna stjórnarmyndun og leggja svo fram fjárlagafrumvarp og stefnuskjal nýs forsætisráðherra að hausti,“ segir Svandís.
„Ég held að það sé betra fyrirkomulag en að vera með kosningabaráttu yfir sumarið og kjósa að hausti og vera með þennan hluta þingstarfanna í röngum takti. Það er bara mín skoðun. Ég held að þetta sé bara praktískt og betra að gera þetta svona.“
Í dag stendur til að landsmenn gangi til þingkosninga 27. september á næsta ári.
Hafa kosningar almennt farið fram að vori til en fara nú fram að hausti til í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn var mynduð að hausti eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar klofnaði þann 15. september 2017.