Fleiri eru andvígir frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð utanríkisráðherra um bókun 35 en þeir sem eru því fylgjandi.
Þetta kemur fram í könnun sem Prósent gerði fyrir hönd Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.
Fram kemur að 39% séu á móti en 35% fylgjandi bókuninni.
„Fleiri í röðum stuðningsmanna Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins, Framsóknarflokksins og Sósíalistaflokks Íslands eru á móti frumvarpinu en fleiri á meðal stuðningsmanna Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hlynntir samþykkt þess,“ segir á vef Heimssýnar.
Frumvarpið gengur að sögn út á það að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn gangi framar löggjöf sem á sér innlendan uppruna.
Segir í færslu um málið á vefsvæði Heimssýnar að til standi að leggja það fram á núverandi þingi en það var einnig lagt fram í fyrra.
„Mest andstaðan við frumvarpið er á meðal stuðningsmanna Miðflokksins samkvæmt könnuninni eða 61% á móti 16% sem eru því hlynnt. Næst koma stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Flokks fólksins með 45% andvíg frumvarpinu en 23% og 20% hlynnt því. Þá eru 42% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins andvíg frumvarpinu en 16% hlynnt. Loks er tæpur þriðjungur stuðningsmanna Sósíalistaflokksins andvígur eða 32% en 22% hlynnt,“ segir á vefsvæði Heimssýnar.
„Fróðlegt er að skoða stöðuna ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti frumvarpi utanríkisráðherra á meðal stuðningsmanna áðurnefndra flokka. Þá eru 79% stuðningsmanna Miðflokksins á móti frumvarpinu, 72% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, 69% stuðningsmanna Flokks fólksins, 66% stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 59% stuðningsmanna Sósíalistaflokks Íslands.“
„Mestur stuðningur við frumvarp Þórdísar Kolbrúnar er á meðal stuðningsmanna Viðreisnar eða 58% á meðan 12% eru því andvíg. Næst koma stuðningsmenn Samfylkingarinnar með 45% hlynnt og 16% andvíg.
Þá eru 40% stuðningsmanna VG hlynnt því en 24% andvíg. Loks styður tæpur þriðjungur stuðningsmanna Píratafrumvarpið eða 32% en 12% andvíg því.“
Könnunin var gerð dagana 18. september til 3. október 2024. Úrtakið var 2.150 einstaklingar, 18 ára og eldri, og var svarhlutfallið 51%.